Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fyrsta flokks heilbrigðiskerfi er ekki sett í forgang

Fyrsta flokks heilbrigðiskerfi er í forgangi hjá 90% lands manna. Stjórnvöld hafa hins vegar sýnt það aftur og aftur að þau forgangsraða öðru fyrst. Lægri veiðigjöld fyrir sjávarútvegsfyrirtækin hefur meiri forgang. Það hafði afnám auðlegðarskattsins líka. Lækkun skatta á álfyrirtækin var forgangsverkfni fjármálaráðherra 1. maí og núna vill hann lækka skatta í stað þess að forgangsraða því svigrúmi sem lægra vaxtabyrði ríkissjóðs skapar til að halda í fyrsta flokks heilbrigðiskerfi. Það er kýr skýrt að fyrsta flokks heilbrigðiskerfi er ekki í forgangi hjá þessari ríkisstjórn.


Lög á verkfall setur fyrstaflokks heilbrigðiskerfi í hættu

Lög á verkföll heilbrigðisstarfsmanna er ekki leiðin til að halda í fyrstaflokks heilbrigðiskerfi. Það setur fyrstaflokks heilbrigðiskerfi í hættu.

Ef þú stjórnar landinu þá setur þú ekki lög á verkfall heilbrigðisstarfsmanna sem geta fengið allt að tvöfalt betri laun fyrir minni vinnu og betri aðstöðu til að hjúkra fólki í nágrannaríkjunum.

Ef þú stjórnar skattfé landsmanna þá forgangsraðar þú því í fyrstaflokks heilbrigðiskerfi eins og 90% landsmanna vilja óháð flokki, kjördæmi, aldri, menntun eða efnahag. Það þýðir að hækka þurfi laun heilbrigðisstarfsmanna nóg til að halda í þá og fyrsta flokks heilbrigðiskerfið.

Í síðustu fjárlögum vantaði 3 milljarða í heilbrigðiskerfið samkvæmt forsvarsmönnum allra heilbrigðisstofnana landsins. Þessir fjármunir voru til, enda fjárlögin hallalaus upp á 3,4 milljarða.

Ef ríkisstjórnin leggur fram í þinginu frumvarp um lög á verkfall heilbrigðisstarfsmanna þá er kominn tími til að setja þessum stjórnvöldum stólinn fyrir dyrnar og læsa þau inni í herbergi þar til þau fara að hlusta á forgangsröðun landsmanna og finna lausnir í samræmi við þann vilja.


mbl.is Lög verði sett á verkföllin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frumvarp um að ráðherrar fái meiri völd og minni ábyrgð

Þetta frumvarp forsætisráðherra er ekki gott fyrir þjóðina. Þetta er ekki gott fyrir þingið. Þetta er ekki gott fyrir ráðherrana sjálfa, því þetta býður þeim upp á miklu meiri freystivanda að fara illa með valdið.


Þingið í fyrsta gír þar til forseti Alþingis þvingar formenn að samningsborðinu

Þegar deilandi aðilar (ráðherrar og þingmenn hér) valda öðrum sem ekki eru aðilar að deilunni tjóni (þjóðin sem stjórnmálamenn vinna fyrir) þá er rétt að þeir sem vald hafa til að þvinga deiluaðila að samningaborðinu (forseti Alþingis hefur það), vanrækji ekki að beita því valdi. 


Skilyrðislaus grunnframfærsla mun koma sífellt meira inn í umræðuna.

Píratar hafa lagt fram þingsályktun um að kostir og gallar skilyrðislausrar grunnframfærslu (Borgaralaun) séu kannaðir hér á landi. The Economist hefur fjallað um málið sem einn þeirra kosta sem munu í meira mæli vera skoðaður samhliða því að tölvur og róbótar taki helming starfa á næstu tuttugu árum. Greining blaðsins segir að við höfum ekki enn efni á þessu en sama hvort greiningin sé rétt eða ekki þá kemur að því. Hér er góð heildstæð grein um þau vandamál sem skilyrðislaus grunnframfærsla leysir og kostunum sem henni fylgir í 21.aldar upplýsingatæknisamfélagi.


Málskotsréttur þjóðar í stað málþófsréttar þings

Þar til að þjóðin sjálf fær málskotsréttinn til að stöðva meirihlutan á þingi þá er það hlutverk minnihlutans að beita málþófi til að koma í veg fyrir að meirihluti þingmanna (32+ einstaklingar) gangi gegn meirihlutavilja landsmanna (160.000+ kjósendur). Málþóf í þinginu er líka forsenda þess að Forseti Íslands beiti sínum málskotsrétti. Já þetta er gamaldags fyrirkomulag. Og já það er til betri leið til að tryggja vilja meirihluta landsmanna. Leið sem mikill meirihluti kjósenda vill og hefur samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. Er ekki kominn tími til að binda í stórnarskrá rétt tiltekins minnihluta kjósenda til að vísa málum sem Alþingi samþykkir í þjóðaratkvæðagreiðslu?


mbl.is Setji ný met í málþófi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rammalöggjöf um farsælari gerð kjarasamninga

Verkföllin sem nú ýmist standa eða vofa yfir með hættuástandi í heilbrigðiskerfinu og gríðarlegum kostnaði fyrir alla landsmenn voru fyrirsjáanleg. Þegar stjórnvöld sjá fyrir slíka krísu þá ber þeim skylda að setja framarlega í forgangsröðina vinnu til að bregðast sem farsælast við henni.

Ríkisstjórnin hefur síðustu tvö ár lofað að "unnið verður að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðarog tóku fyrir tveimur árum þátt í starfi með aðilum vinnumarkaðarins um "breytta umgjörð við gerð kjarasamninga [til að] tryggja meiri aga og festu líkt og einkennir gerð kjarasamninga á Norðurlöndumog bæði ASÍ og SA hafa talað fyrir. Ríkisstjórnin lofaði líka eftir kosningar að hún myndi "með aðgerðum sínum [...] eyða þeirri pólitísku óvissu". Óvissa hefur ekki verið meiri á vinnumarkaði lengi og ekkert bólar enn á rammalöggjöf utan um farsælli gerð kjarasamninga. 


Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins:

"Með aðgerðum sínum hyggst ríkisstjórnin einnig eyða þeirri pólitísku óvissu sem hefur verið of áberandi þáttur í íslensku þjóðlífi á undanförnum árum. Unnið verður að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar. Það er forsenda þess að Íslendingar geti hafið nýtt skeið vaxtar og stöðugleika að íslenskt efnahagslíf njóti að nýju trausts á innlendum sem erlendum vettvangi. Þannig verða undirstöður velferðar treystar og sköpuð skilyrði fyrir bættri afkomu heimilanna."

Minnisblaði sitjandi stjórnvalda til aðila vinnumarkaðarins, Undirbúningur kjarasamninga með áherslu á efnahagslegan stöðugleika og kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna sem og breytta umgjörð við gerð kjarasamninga, segir:

"Í aðdraganda að gerð kjarasamninga hafa aðilar vinnumarkaðarins horft til framtíðar og breyttrar umgjarðar við gerð kjarasamninga. Vilji er til að tryggja meiri aga og festu líkt og einkennir gerð kjarasamninga á Norðurlöndum hvort sem um er að ræða bein samskipti aðila vinnumarkaðarins eða tengsla kjarasamninga við efnahagsstefnu stjórnvalda. Skýrslan „Kjarasamningar og vinnumarkaður á Norðurlöndum “ sem kom út í mars 2013 er skref í þá átt að skilgreina meginþætti norræna samningamódelsins og hlutverk ríkisins. Einnig þarf að skerpa sameiginlega sýn viðsemjanda á efnahagsmál og launabreytingar sem samrýmast stöðugleika og mikilvægi hlutverks ríkisins við að skapa samningum traustan grundvöll með ábyrgri efnahagsstefnu. Skýrslan „Í aðdraganda kjarasamninga – Efnahagsumhverfi og launaþróun“ sem kom út í október 2013 er afrakstur þeirrar vinnu."

Riti Alþýðusambands Íslands, Kaup og kjör – sköpun verðmæta til að ná fram jöfnuði, segir:

"ASÍ og SA lýstu því yfir í tengslum við endurskoðun kjarasamninga árið 2013 að samtökin vildu koma að sameiginlegu borði með aðilum opinbera vinnumarkaðarins og setja sér markmið um bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Nærtækast töldu ASÍ og SA að leita fyrirmynda hjá nágrannalöndunum sem tekist hefur að auka kaupmátt samhliða lágri verðbólgu. Samtökin töldu rétt að stefna að því að í sumarbyrjun 2013 yrði til sameiginleg sýn allra aðila vinnumarkaðarins á svigrúm atvinnulífsins og samfélagsins til aukins kostnaðar og bættra lífskjara næstu árin. Sú sýn og bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga áttu að vera mótandi við gerð kjarasamninga haustið 2013."

Riti Samtaka Atvinnulífsins, 10/10 BETRI LÍFSKJÖR 10 TILLÖGUR TIL AÐ KOMA OKKUR Á TOPPINN Á 10 ÁRUM, segir: 

"Norræna vinnumarkaðslíkanið hefur tryggt efnahagslegan stöðugleika og skapað betri lífskjör en íslenska líkanið. Aðilar vinnumarkaðar, stjórnvöld og Seðlabankinn bera sameiginlega ábyrgð á því að koma á og viðhalda efnahagslegum stöðugleika. [...] Rökrétt viðbrögð við ítrekuðum efnahagsvanda Íslands er að leita fyrirmynda hjá nágrannaríkjum Íslands sem geti nýst til að bæta vinnubrögð við hagstjórn og launamyndun þannig að saman fari stöðugt verðlag, stöðugt gengi, vaxandi kaupmáttur og samkeppnishæft atvinnulíf."

Tillögur Samráðsvettvangs um aukna hagsæld:

"Gerðar verði umbætur á fyrirkomulagi kjarasamninga. Nýtt verklag við kjarasamninga til stuðnings við uppbyggilegar viðræður og útkomur í jafnvægi. Sjálfvirk úrræði sem neyða samningsaðila til að hefja viðræður fyrr og halda sér við efnið. Ríkissáttasemjari með sterkt umboð."


Hættulegt fyrir lýðræðið að Alþingi hefur virðingu án þess að vera virðingarvert

Málþóf er einkenni á vandamáli samráðsleysis um langtímastefnumótun sem kostar samfélagið og efnahag landsins stórar fjárhæðir (sjá bls 85 í McKinsey skýrslunni um Ísland). En ef landsmenn fengju neitunarvald á löggjöf sem Alþingi samþykkir, eins og yfir 73% landsmanna vilja, þá væri Alþingi þvingað til að vinna saman að langtímastefnumótun til hagsbóta fyrir alla landsmenn, því annars myndu landsmenn stöðva löggjöf sem klárlega er ekki meirihluti fyrir og samstaða um í samfélaginu.


mbl.is Bjarni vill breyta þingsköpum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frumvarp um að einkavæðing bankanna fari í fangið á Bjarna Ben

Tilgangur Bankasýslu Ríkisins er að sýsla með eignir ríkisins í bönkunum. Frá stofnun fyrir sex árum hefur safnast þar sérþekking m.a. um sölu þessara eigna sem eru að andvirði þriggja nýrra landsspítala. En með þessu frumvarpi á að leggja hana niður rétt áður þessar eignirnar eru seldar, færa verkefni hennar inn í fjármálaráðuneytið og gera fjármálaráðherra auðveldar fyrir, og í raun að ráða því einn hvernig söluferlinu sé háttað. Jú hann þarf að leggja hluti fyrir aðra, en hann ræður einn á endanum.

Ríkið á ekki að eiga í fjármálafyrirtækjum. Hvorki í bönkunum, né Íbúðalánasjóði, því það skapar hagsmunaárekstra, eins og þann að ef ríkið hefði hugsað eins vel og lög kváðu á um réttarstöðu lántakenda þá hefði ríkissjóður tapa fé sem gert hefði hallalaus fjárlög fjarlægari möguleika. Eignir ríkisins í viðskiptabönkunum ætti því að selja. En söluferlið þarf að vera eins faglegt og mögulegt er, og ekki bjóða upp á geðþóttavaldi ráðherra. Frumvarpið mun bæði gera söluferlið ófaglegra og færa ákvarðanatökuna alfarið í hendur Bjarna Ben.


Frumvarp sem gerir gjafakvótan óafturkræfan

Þetta er snjallt fyrsta skref hjá kvótaflokkunum til að byrja að múra gjafakvótakerfið inn til lengri tíma, og gera það með því að gefa kvóta á nýrri fiskitegund, makríl, í stað þess að ríkið sjálft leigir út kvótan á frjálsum markaði. Þessu er líka styllt upp þannig að Foseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hefur svigrúm til að smegja sér framhjá því að senda málið til þjóðarinnar með þeim rökum að þetta sé ekki heildarendurskoðun. Þetta er fyrsta skerfið í heildarendurskoðun og grundvallabreyting, en forseti vor er háll sem áll og þessi framsetning býr til smugu fyrir hann.

Forseti Íslands útlistaði skilyrði þess að hann skjóti lögum um sameiginlega fiskveiðiauðlind þjóðarinnar til þjóðarinna þegar hann skrifaði undir lækkun á sérstökum veiðigjöldum sem þjóðin fær í sinn hlut sumarið 2013. Skilyrði forseta voru: mikil andstaða í samfélaginu með miklum mótmælum og undirskriftum ásamst mikilli andstöðu og málþófi á þingi. Ég er tilbúinn að setja mikið púður í það. En þetta verður ekki stöðvað nema hinir minnihlutaflokkarnir séu til í að gera það líka og það gerist eflaust ekki nema mikil andstaða verður við málið í samfélaginu.

Í ræðu við fyrstu umræðu frumvarpsins tek ég saman hvað þetta frumvarp mun þýða og hvað hægt er að gera öðruvísi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband