Sanngirni, sómakennd og Davíð Oddsson
7.6.2016 | 19:41
Í viðtali á Hringbraut sem forsetaframbjóðandi 20. maí síðastliðinn stendur Davíð ekki við það sem hann hafði sagt eftir að hann gerði Ísland samábyrgt í stríði. Hann segist þar hafa gert það "eftir að stríðið var hafið." Níu dögum síðar í viðtali á Eyjunni segir Davíð við Guðna Th forsetaframbjóðenda: "Guðni, elskulegur Guðni, ef þú ætlar að bjóða þig fram til forseta þá máttu ekki hlaupa frá öllu sem þú hefur sagt, þú bara mátt það ekki. Ég geri það ekki, og þú mátt það ekki, það er ekki sanngjarnt."
Ísland þurfti ekki að vera samábyrgt í þessu stríði. Davíð Oddsson ákvað að setja okkur á listann. Íslendingar eru stoltir af því að vera friðsælt og friðelskandi fólk. Síðar í mánuðinum sjáum við hvort að landsmenn vilja sjá sem sameiningartákn þjóðarinnar og andlit Íslands á alþjóðavettvangi þann mann sem gerði Ísland samábyrgt í stríði sem kostaði hundruð þúsunda lífið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2016 kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Bush sagði Davíð gera Ísland samábyrgt í Írakstríðinu
1.6.2016 | 18:03
Íslendingar eru herlaust og friðelskandi fólk sem Davíð Oddsson setti á lista bandalags hinn viljugu þjóða í árásarstríði á Írak.
Kvöldið fyrir innrás bandamanna í Írak ávarpaði Bush þjóð sína. Þar lýsir hann að loftárásir væru hafnar og að "Hver einasta þjóð í þessu bandalagi hefur valið að axla ábygðina og deila heiðrinum við að standa vörð um sameiginlegar varnir okkar."
Noregur, Frakkland, Þýskaland og flest ríki í vestur Evrópu skrifuðu sig ekki á listann. Costa Rica lét fjarlægja sig af listanum eftir að stjórnlagadómstóll úrskurðaði að vera landsins á listanum bryti í bága við meginreglur landsins um friðsemi. Þátttaka í stríðinu fylgdi ekki því að vera NATO meðlimur og Sameinuðu Þjóðirnar studdu stríðið ekki.
Ísland þurfti ekki að vera samábyrgt í þessu stríði. Davíð Oddsson ákvað að setja okkur á listann, sem var birtur 18. mars 2003, og það áður en málið var rætt á ráðherrafundi og í utanríkismálanefnd Alþingis 21. mars 2003 eins og lög og stjórnarskrá kveða á um.
17 grein Stjórnarskrár Íslands segir: "Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni." Svo annað hvort er stjórnarskráin það gölluð að tveir ráðherrar geta gert Ísland samábyrgt í stríði með því að segja þá ákvörðun ekki vera "mikilvæg stjórnarmálefni" eða að Davíð braut stjórnarskránna.
Íslendingar eru stoltir af því að vera friðsælt og friðelskandi fólk. Síðar í mánuðinum sjáum við hvort að landsmenn vilja sjá sem sameiningartákn þjóðarinnar og andlit Íslands á alþjóðavettvangi þann mann sem gerði Ísland samábyrgt í stríði sem kostaði hundruð þúsunda lífið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Alvarleiki Wintris eru hagsmunir SDG við haftalosun
12.5.2016 | 13:55
Sigmundur Davíð hefur haldið því fram að Wintris félag konu hans hafi alltaf greitt skatta. Það má vera. Það mál snýst um einhverjar milljónir. Stóramálið er hins vegar að kona Sigmundar hafði sem eigandi Wintris og því kröfuhafi í föllnu bönkunum fjárhagsmuni að gæta í haftalosunarferli eiginmanns síns. Það mál varðar hundruð milljarða.
Deilt er um hvaða hagsmuni Sigmundur lét víkja við val á leiðum til haftalosunar, hagsmuni landsmana eða fjárhagsmuni konunnar hans. Sjálfur segist hann hafa fórnað hagsmunum konu sinnar. Ekki er þó deilt um að á síðustu stundu í haftalosunarferli ríkisstjórnar Sigmundar þá var skipt um stefnu. Í stað þess að leggja útgönguskatt á alla kröfuhafa þá var kröfuhöfum boðið að greiða stöðugleikaframlag í stað stöðugleikaskatts. Framlag kröfuhafanna varð 384 milljarðar í stað stöðuleikaskatts upp á 620 milljarða, samkvæmt Fjármálaráðuneytinu og Seðlabanka Íslands.
Kona Sigmundar hefur sagt opinberlega að hún sé kröfuhafi og makar hafa alltaf fjárhagslega hagsmuni af fjárhag maka síns þó að um séreign sé að ræða. Það eru alþjóðlega viðurkenndir góðir stjórnhættir að fólk sem velji að fara með almannavald forðist svona hagsmunaárekstra, en sé það ómögulegt að upplýsa þá um þá. Hjónin gátu ekki bæði haldið í sitt, Sigmundur í drauminn um sæti í ríkisstjórn og konan hans í kröfur Wintris, án þess að búa til hagsmunaárekstra sem alþjóðasamfélagið hefur sameinast um að skuli réttilega forðast. Sigmundur ætlaði skiljanlega ekki að sleppa stjórnmálaferlinum, en félög eins og Wintris eða kröfur þeirra er hægt að selja. En þau ákváðu bæði að halda í sitt og hafa hljótt um það.
Stóru hagsmunirnir eru ekki skattskil konu Sigmundar, alvarleiki Wintrismálsins er fyrst og fremst að sem æðsti valdamaður landsins hafði Sigmundur Davíð hagsmuni að gæta beggja vegna borðsins þegar kökunni var skipt milli landsmanna og kröfuhafa við losun hafta og hélt því leyndu fyrir þjóðinni.
![]() |
Hátt í 400 milljónir í skatta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |