Píratar eru um 4 kjörtímabila verkefni.
6.1.2014 | 02:51

Jón Gnarr er færasti stjórnmálamaður Íslands síðan Davíð Oddsson yfirgaf stóra sviðið. Jóni hefði þó aldrei enst dvölin eins lengi og Davíð, enda ekki stjórnmálamaður í raun, en það sem hann gerði á þessum stutta tíma var tær snilld. Reynsla okkar Pírata í þinginu hefur hins vegar verið þvert á trú og tilfinningu Jóns sem segir á vefsíðunni Reddit: Píratar eru fínir á margan hátt. Ég hef ekki mikla trú á þeim og held að þeir muni ekki þola álagið til lengdar. Þegar þú kemur svona sem átsæter þá ertu með bæði hægri og vinstri á móti þér.
Við Píratar höfum nefnilega átt gott samstarf við bæði hægri og vinstri á þingi, og lagt fram lagafrumvarp um stöðvun nauðungasalna (sem Hanna Birna bætti um betur og kláraði) og beiðni um skýrslu um Dróma með aðstoð meir- og minnihluta flokka á þinginu.
Þingmenn munu alltaf hugsa um hagsmuni sína og sinna umbjóðenda. Og Píratar eiga sameiginlega hagsmuni með bæði hægri og vinstri. Hvort þingmönnum annarra flokka líkar við okkur er ekki málið. Píratar eru ekki á þingi til að eignast vini, við höfum skýra framtíðarsýn og kjósendur hafa treyst okkur fyrir öflugu verkfæri sem þingmennska veitir til að ná henni fram.
Píratar eru stjórnmálaarmur upplýsingabyltingarinnar og undiralda hennar er að færa okkur í átt til upplýstara samfélags þar sem allir hafa í ríkara mæli rétt á að koma að ákvörðunum sem þá varðar og það á upplýstan hátt. Þetta er framtíðarsýnin sem Píratar stefna að. Aðrir flokkar munu fylgja því fordæmi eða tapa fylgi samhliða fjölgun þeirra sem nota internetið í ríku mæli, eins og ég nefni nánar í áramótagrein fyrir Pírata í Morgunblaðinu.
Píratar eru rétt undir 30% fylgi hjá þeim aldurshópi sem mest notar internetið, 18 - 29 ára. Eftir fjögur kjörtímabil verður sá hópur á aldrinum 18 - 45 ára. Grunnstefna Pírata munu áfram höfða til þessa hóps að því gefnu að þetta fólk haldi áfram að nota internetið í miklu mæli og finnast mikilvægt að verja grunnréttindi sín þar, ásamt því að nýta netið til að taka meira þátt í ákvarðannatöku hins opinbera. Svo eftir um 4 kjörtímabil verður búið að tryggja mikið af grunnstefnu Pírata í lög og reglur, því hún er stefna sem bæði hægri og vinstri flokkar geta og munu taka upp ef þeir vilja ekki verða af fylgi þessa ört vaxandi hóps kjósenda.
Það er góð tilfinning að verja og efla réttindi fólks. Það færir manni frið að hafa við þá iðju fullan þunga mestu tæknibyltingar mannkynssögunnar að baki sér. Grunnstefna Pírata er að vega þyngra í gildismati fólks. Meðan að slíkt heldur áfram munu Píratar áfram starfa með bæði hægri og vinstir á Alþingi okkar Íslendinga.

![]() |
Píratar þoli ekki álagið til lengdar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Siðaboðskapur kærleika væri á sandi byggður án samkenndar.
3.1.2014 | 23:16

Ímyndum okkar heim án samkenndar; án þess eiginleika fólks að finna hvernig öðrum líður. Án samkenndar myndi vanta undirstöðu þess að finna til með öðrum, að sýna samúð (compassion). Samkennd en ekki siðaboðskapur er undirstaða kærleikans; að finna til samúðar og einingar með öðrum.
Ef persónulegur guð skapaði manninn þá væri samkennd eitt af meistaraverkunum. Án samkenndar væri kærleikurinn í kristninni og annar siðaboðskapur jafn holur hljómur fyrir okkur eins og hann er fyrir siðblindingjum. Samkennd er nefnilega gerð möguleg með svokölluðum speglataugum (mirror neurons) í heila alls fólks nema þeirra sem eru líffræðilega siðblindir (psycopaths). Siðaboðskapur kærleikans myndi skolast fljótt í burtu ef hann byggði ekki á klettinum sem samkennd fólks er. Í heimi byggðum einvörðungu af siðblindingjum væri siðaboðskapurinn ekki kærleikur.
Það eru ekki ný sannindi að frið og kærleik finnur fólk í gegnum ýmiss konar hugrækt. Jafnt í hugleiðslu, bæn og íhugun (contemplation) á Guð. En engin hugtök, orð eða nöfn geta lýst guði. Sá sannleikur er gamall og má finna jafnt í Kristni, öllum stóru trúarbrögðum heimsins og hjá heimspekinginum Sókratesi. Svo sá sem íhugar Guð án hugtaka er í grunninn að gera það sama og Zen munkurinn í Japan og upplifa hugarástand sem Sókrates lýsir fyrir lærisveinunum stuttu áður en hann drekkur bikarinn (Faidon 79d); Að vera meðvitaður án hugtaka. Í heimi þar sem hugur okkar er upptekinn allar vökustundir væri ekki úr lagi að íhuga öðru hverju án hugtaka og komast í meiri snertingu við samkennd okkar, frið og kærleika.
Höfundur metsölubókarinnar 'Emotional Intelligence' talar hér að neðan í TED fyrirlestri um rannsókn á því hvernig samkennd þrífst síður hjá þeim sem gefa sér ekki tíma til að staldra við.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.1.2014 kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
New York Times: Sakaruppgjöf fyrir Snowden
2.1.2014 | 11:19
Áhrifamesta dagblað Bandaríkjanna kallar kallar eftir því að Snowden sé veitt sakaruppgjöf sökum þess hve verðmætur leki hans um brot Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna hefur reynst. "hann hefur gert landi sínu mikinn greiða." segir einnig í nýárs ritstjórnarleiðara blaðsins.
Við getum sýnt Snowden stuðning og veitt honum öruggt pólitískt hæli með því að veita honum ríkisborgararétt. Það myndi sýna í verki stuðning Íslands við upplýsinga- og tjáningafrelsi ásamt vilja okkar til að vernda friðhelgi einkalífsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.1.2014 kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)