Ráðist á embættismenn sem rannsaka ráðherra.
28.8.2014 | 15:21
Lögreglustjórinn í Reykjavík segist aldrei áður hafa staðið frammi fyrir svona afskiptum ráðherra af rannsókn og þar sem hann væri í klemmu leitaði hann til Ríkissaksóknara og fannst hann ekki geta annað en upplýst Umboðsmann Alþingis um málavexti að hans beiðni. Að auki segir hann af sér sem lögreglustjóri og eftir beiðni aðstoðarmanna ráðherra sendir hann frá sér að afsögnin hafi ekki verið tilkomin vegna ráðherra. Þetta eru fagleg vinnubrögð embættismanns af gamla skólanum.
Umboðsmaður Alþingis hefur verið að rannsaka hvort tilefni sé til að gera skýrslu lögum samkvæmt vegna "stórvægilegra mistaka eða afbrota stjórnvalds." Fylgist því með árásunum á Umboðsmann Alþingis. Það er annar embættismaðurinn sem verður fyrir árásum við að sinna lögbundnu eftirliti með því að rannsaka möguleg brot ráðherra í starfi. Því ef Umboðsmaður Alþingis, sem er æðsta eftirlitsstofnun Alþingis með stjórnsýslunni, gerir skýrslu þar sem fram koma afbrot ráðherra, þá verður erfitt að verja ráðherra vantrausti án þess að grafa undan Umboðsmanninum og embættinu. Fylgist því með árásum á Umboðsmann Alþingis. Sér í lagi þegar þungavigtamennirnir láta af þeim.

Ráðherra sem er yfirmaður lögreglumála hafði ítrekuð afskipti af rannsókn lögreglu, á glæp sem hennar aðstoðarmaður var að lokum ákærður fyrir, gusar gagnrýni yfir lögreglustjórann og hóta rannsókn.
Ráðherra dómsmála segir eftir ákæru ríkissaksóknara á aðstoðarmann hennar að hún telji hann saklausan, þrátt fyrir að saksóknari ákærir ekki nema hann telji líkur á sakfellingu.
Ráðherra sem heyrir undir eftirlit Umboðsmanns Alþingis gagnrýnir rannsókn hans á sér og segir hana engu betri en margra þeirra blaðamanna sem hafa fjallað um málið.

Mér finnst þetta orðið dálítið alvarlegt þegar innanríkisráðherra er farin að ganga svo langt að hún segist ekki treysta lögreglunni, ríkissaksóknara og umboðsmanni. Hvað með almenning í landinu, eigum við að treysta þessu liði?
![]() |
Eigum við að treysta þessu liði? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Var vitað, en útfærslan langoftast ólögleg.
28.8.2014 | 11:38
Verðtryggingin sjálf er ekki ólögleg á neytendalánum en útfærslan á henni í neytendalánasamningum frá 2001, þar sem kostnaður við verðtrygginguna var reiknaður miðað við 0% verðbólgu, er ólögleg. Það er álit eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), framkvæmdarstjórnar ESB og Neytendastofu. Í september (líklega) mun EFTA dómstóllinn svo gefa sitt álit um þennan þátt, að beiðni Verkalýðsfélags Akraness.
Mál HH gegn ÍLS sem verður tekið fyrir í Héraðsdómi mögulega um mánaðamótin sept/nóv snýst einmitt um að útfærsla verðtryggingar í neytendalánasamningum frá 2001 sé ólögmæt, ekki hvort verðtrygging sem slík á neytendalánum sé það. Það mál mun klárast fyrir hæstarétti á næsta ári. Mögulega um mitt ár.
Það hefur aldrei gerst að Hæstiréttur hefur dæmt gegn áliti EFTA dómstólsins. Svo áhugasamir ættu að fylgast með álitinu sem kemur eflaust í september. Ef það er samhljóma hinum áðurnefndu þá eru miklar líkur á stórri skuldaleiðréttingu á flestum verðtryggðum neytendalánum (hús og bíla) á næsta ári.
Kalt mat: Annað hvort munu Hæstiréttur leggja til endurreikning með 4% stýrivexti á línuna eða stjórnarflokkarnir muni gera það. Hvort heldur sem er mun stökkbreytingin verðtryggðra húsnæðis- og bílalána vegna hrunsins loks leiðréttast.
![]() |
Verðtrygging ekki bönnuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hve dýr má einstakur ráðherra vera?
27.8.2014 | 11:45
Viðbrögð ráðherra dómsmála við lekanum sem hennar handvaldi aðstoðarmaður hefur verið ákærður fyrir mun líklega enda á borði þingsins sem tillaga um kæru til landsdóms.
Rannsókn Umboðsmanns Alþingis er til að meta hvort hann þurfi að gera skýrslu vegna "stórvægilegra mistaka eða afbrota stjórnvalds" lögum samkvæmt. Ef það verður raunin geta þingmenn ekki vikið sér undan því að leggja fram tillögu um kæru á hendur ráðherra. Þá mun ríkisstjórnin hafa slæman málstað að verja í það minnsta fram á næsta vor. Það mun veikja stöðu hennar til annarra verka. Hvort og hverjir ákveða að taka varnarstöðuna mun best sjást á árásum á Umboðsmann Alþingis. Því meðan hann nýtur trausts geta þingmenn ekki hundsað hans embættisverk.
Hve dýr má einstakur ráðherra vera? Þurfa mikilvægir embættismenn sem rannsaka möguleg brot ráðherra áfram að víkja og mikilvæg embætti að tapa trausti svo að einstakur ráðherra fái áfram að sitja?
_____________
Uppfærsla 28/08/2014 kl. 12:49:
Eftir nánari athugun er ólíklegra að ráðherra verði kærður til landsdóms, en líklegra að það verði svo óvinsælt að verja hann vantrausti að ráðherra verði látin segja sjálfur af sér.
Í skýrslunni Eftirlit Alþingis með Framkvæmdarvaldinu sem forsætisnefnd Alþingis lét gera árið 2009 kemur fram að: "Lög um ráðherra ábyrgð [sem gefa tilefni til ákæru til Landsdóms] eiga hins vegar aðeins við um fullframin brot. [...] Tilraun til brota samkvæmt ráðherraábyrgðarlögum eru því sennilega refsilaus."
Í lögum um ráðherraábyrgð eru tiltekin í 8 - 10 gr. þau brot sem varða ráðherraábyrgð. Þó ráðherra virðist hafa gert tilraun til að framkvæmd lögreglurannsóknar "myndi fyrir farast" þá virðist það ekki hafa tekist vegna faglegra viðbragða Lögreglustjórans í Reykjavík sem leitaði til Ríkissaksóknara og upplýsti svo Umboðsmann Alþingis um málavexti.
Þá er aðeins um það brot að ræða hvort ráðherra "misbeitir stórlega valdi sínu." En um það ákvæði segir í skýrslunni: "Það getur verið álitamál hvenær brotið er gegn 10. gr. þar sem ákvæðið er mjög almennt orðað."
Eftir stendur skýrslan sem Umboðsmaður Alþingis er að rannsaka hvort tilefni sé til að gera lögum samkvæmt vegna "stórvægilegra mistaka eða afbrota stjórnvalds." Fylgist því með árásunum á Umboðsmann Alþingis. Þar er annar embættismaður sem verður fyrir árásum við að sinna lögbundnu eftirliti með því að rannsaka möguleg brot ráðherra í starfi.
Því ef Umboðsmaður Alþingis sem er æðsta eftirlitsstofnun Alþingis með stjórnsýslunni gerir skýrslu þar sem fram koma afbrot ráðherra, þá verður erfitt að verja ráðherra vantrausti án þess að grafa undan Umboðsmanninum og embættinu.
![]() |
Óánægð með vinnubrögð umboðsmanns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.8.2014 kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)