Opið bréf til þingmanna: "Til að treysta stjórnvöldum."

Kæru þingmenn. 

Út um allt samfélagið er fólk að spyrja sig með einum eða öðrum hætti:  
"Hvað þarf stjórnarskráin að segja til að takmarka og uppræta misbeitingu stjórnvaldsins?" og 
"Hverjum er best treystandi til að semja og samþykkja slíka stjórnarskrá?"
 

Til að komast nær svari hef ég í skrifum bent landsmönnum á að spyrja sig nokkurra spurninga.  

Viljið þið vera svo væn að svara tveimur þeirra?

 

SPURNINGIN 1:

   Treystir þú öðrum en þínum stjórnmálaflokki til að misfara ekki með stjórnvaldið án þess að fimm eftirfarandi grunnreglur séu festar í stjórnarskránni?
  

til_a_treysta_stjornvoldum_989347.jpg

Fimm grunnreglur til að takmarka og uppræta misbeitingu stjórnvaldsins:
(Spurningarnar sem fylgja grunnreglunum eru fyrir þá sem vilja gefa þjóðinni skýrari mynd af sinni afstöðu).

1. Valdheimildin skal vera skýrt afmörkuð svo ljóst sé hvort valdhafar fara um fram hana. Ættu stjórnvöld að hafa vald til að gefa nýtingarétt á náttúruauðlindum þjóðarinnar eða að leigja þær út til margra kynslóða? Hafa tveir menn vald til að lýsa yfir stríði í nafni Íslands? 

2. Valdinu skal dreifa svo að spilling eigi erfiðara uppdráttar og sé auðveldari að uppræta. Ætti sami hópurinn að hafa löggjafar- og framkvæmdavald, ásamt því að skipa dómsvaldið og stilla upp í stjórnsýslunni? Ætti þjóðin að hafa vald til að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu?

3. Valdbeitingin skal vera gegnsæ svo því verði ekki leynt þegar valdhafar fara umfram valdheimildir sínar. Er leynd yfir aðgerðum stjórnvalda einhvern tíman mikilvægari fyrir þjóðina en gegnsæi til að fylgjast með misbeitingu stjórnvaldsins? Ef svo er þá mun spilling eiga sér þar skjól. 

4. Valdumboðið skal vera afturkallanlegt svo stöðva megi sem fyrst þá sem misfara með valdheimildir sínar. Því skyldi þjóðin ekki hafa rétt á að afturkalla valdumboð sitt með þjóðaratkvæðagreiðslu þegar stjórnvöld misfara með valdið sem hún fól þeim?

5. Valdmisnotkun skal vera refsiverð svo valdhafar sjái síður hag sinn í að misfara með vald þjóðarinnar. Ef ákæruvaldið er skipað af framkvæmdavaldinu er ólíklegt að það bíti húsbóndann. Því skyldi þjóðin ekki kjósa saksóknara sem gæti m.a. ákært fyrrverandi ráðherra og þingmenn fyrir misbeitingu valdsins?

 

SPURNINGIN 2:

   Hvoru stjórnlagaþinginu treystir þú betur til að setja öllum framtíðar stjórnvöldum traustari leikreglur sem takmarka og uppræta misbeitingu á valdi þjóðarinnar: Tillögu ríkisstjórnarinnar eða tillögu Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns?


Tillaga ríkisstjórnarinnar er að fámennt stjórnlagaþing (skipað fólki sem flest þarf fé og flokksvélar til að ná kosningu) ráðleggi stjórnvöldum hvernig reglur stjórnvöld skulu setja sjálfum sér. 

Tillaga Ragnar Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, í Silfri Egils 22. mars 2009, er að fjölmennt úrtak allra Íslendinga skipi stjórnlagaþing sem semur nýja stjórnarskrá og setur í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Þjóðin þarf stjórnarskrá til að byggja á til framtíðar.

Stjórnkerfið sem þið farið fyrir er einn hornsteina samfélagsins. Aðeins traust stjórnarskrá getur til lengri tíma takmarkað og upprætt spillingu stjórnkerfisins. Við getum ekki treyst á að gott fólk veljist í valdastöður. Ef við kjósum að byggja aftur upp samfélag með slæma stjórnarskrá er öruggt að spilling í stjórnkerfinu mun rífa það niður á ný. Aðeins þið hafið valdið til að velja hvort við fáum löggefandi stjórnlagaþingi þjóðarinnar eða ráðgefandi stjórnlagaþingi flokka og fjármagnseigenda.


Þjóðin þarf svör við þessum spurningum. 
Verið svo væn að svara þeim heiðarlega svo ykkar afstaða sé gegnsæ fyrir þjóðina.

Kærar þakkir,
Jón Þór Ólafsson.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Jón Þór, ég endurbirti þetta síðar í dag á http://kryppa.com/ad-treysta-stjornvoldum/

Gullvagninn (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 05:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband