Ísland verður ekki tryggt með Davíð í Seðlabankanum

se_labanki_slands.jpgÁ vefsíðu Seðlabankans segir að: "Meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi." Þegar ódýrt fjármagn fór að flæða inn í landið og valda óstöðuleika í verðlaginu, með því að blása út húsnæðisbólu og verðbólgu, hafði Seðlabankinn tvö verkfæri til að stuðla að stöðugu verðlagi: byndiskyldu og stýrivexti.

Með því að hækka bindiskylduna hefðu stjórnendur Seðlabankans takmarkað hve mikið viðskiptabankarnir mættu lána, sem hefði stöðvað húsnæðisbóluna og forðað okkur frá frekari verðbólgu sem bólan myndi annars orsaka.

Með því að hækka stýrivextina lítillega tímabundið hefðu stjórnendur Seðlabankans náð niður verðbólgunni sem bólan hafði þá þegar valdið.

Þess í stað lækkuðu stjórnendur Seðlabankans bindiskylduna trekk í trekk meðan húsnæðisbólan var að stækka, og nú síðast þann 15. apríl 2008 lækkuðu þeir hana í "0% á skuldabréf með umsömdum lánstíma lengri en tvö ár," s.s. húsnæðislánum.

Sá sem hefur valdið til að valda hlutum ber ábyrgðina á þeim. Davíð og Co. í Seðlabankanum var falið valdið til að stuðla að stöðugu verðlagi og tóku viljugir ábyrgð á því sem stjórnendur Seðlabanka Íslands. Þetta vald notuðu þeir hins vegar til að valda stærsta efnahagshruni heimsins, miðað við efnahagsstærð.

Það mun enginn tryggja viðskipti við land sem leyfir slíkum óreiðumönnum að stjórna Seðlabanka landsins. Geir Haarde, þú hefur valdið til að skipta þeim út, svo þín er ábyrgðin.


mbl.is Neita að tryggja Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Landfari

Er þetta ekki full mikil einföldun á vandanum að kenna bara Davíð um allt?

Veistu eitthvað hvernig þessi bindiskylda virkar?

Vandamálið með stýrivextina er að Þegar Seðlabankinn stóð réttilega á bremsunni í þenslunni vor þeir einir þar. Ríkisjóður ýtti undir þensluna með mikilli fjölgun ríkisstarfsmanna. Sveitarfélögin og stærri fyrirtæki fóru framhjá stýrivöxtum með erlendum lánum sem stýrirvextir tóku ekki á.

Hækkuð bindiskylda hefði fyrst og fremst haft þau áhrif að drepa niður litlu aðilana sem ekki gátu sótt fé út. Litlir bankar og sparisjóðir hefðu orðið algerlega ósamkeppnishæfir. Einmitt sömu bankarnir og ekki voru í verðbréfabraskinu.

En auðvitað er miklun einfaldara og þægilegra að þurfa ekkert að hugsa og finna bara einhvern til að hengja og þá geta allir orðið sáttir.

Landfari, 15.1.2009 kl. 18:21

2 Smámynd: Jón Þór Ólafsson

Nei, þetta er ekki bara Davíð að kenna. En hann hafði völd og bindiskyldu-verkfæri Seðlabankans til að stöðva húsnæðisbóluna og verðbólguáhrif hennar, og ber því mestu ábyrgðina.

Stóru bankarnir gátu vissulega sótt fé út, og það gerðu þeir. Hluta þessa fjármagns þurftu þeir hins vegar að binda í hlutfalli við bindiskylduhlutfallið, og máttu því ekki lána það. Hærra bindiskylduhlutfall hefði þýtt minni útlán bankanna inn á húsnæðis-bólu-markaðinn, og minni þenslu og verðbólgu til lengri tíma.

Hefði hann bara hækkað bindiskylduna til að stöðvað húsnæðisbóluna sem var að valda verulegri verðbólgu, þá hefði hann ekki þurft að stíga svo fast og lengi á stýrivaxtabremsuna.

Jón Þór Ólafsson, 15.1.2009 kl. 19:09

3 Smámynd: Landfari

Hærra bindiskilduhlutfall hefði, að sögn mér fróðari manna um þessi mál, sett litlu bankana út af markaðnum en sáralítil áhrif haft á vöxt og viðgang stóru bankanna.

Það eru ekki húsnæðislánin sem settu bankana á hliðina.

Vextirnir á húsnæðislánum bankanna hefðu verið hærri en þar sem landinn er nú þekktur fyrir að taka þau lán sem bjóðast, nánast óháð hvaða kjör eru í boði, er ólíklegt aðhúsnæðislánin hefðu verið neitt minni en varð þó vextir hefðu verið hærri. Það var þetta form á lánunum að þurfa ekki að vera að kaupa fasteign til að fá húsnæðislán sem gerði þessa skuldasöfnun heimilanna svo auðvelda.

Landfari, 15.1.2009 kl. 21:50

4 Smámynd: Jón Þór Ólafsson

Eins og þú segir sjálfur þá hefði hærri bindiskylda þýtt hærri vexti. En landinn fór einmitt að taka húsnæðislán í belg og biðu eftir að bankarnir fóru að bjóða lága vexti. Þetta blés út húsnæðisbóluna.

Hærri vextir hefði þýtt minni þenslu, minni og jafnvel enga húsnæðisbólu og minni verðbólgu. Sem er einmitt það sem Seðlabankastjóri á að gera þegar þenslan er að fara úr böndunum til að ná "Meginmarkmiði Seðlabanka Íslands sem er að stuðla að stöðugu verðlagi."

Hvaða vit er í því að lækka bindiskylduna trekk í trekk og afnema hana svo með öllu á húsnæðislánum þegar ofurþensla er á húsnæðsmarkaði?

Jón Þór Ólafsson, 16.1.2009 kl. 16:12

5 Smámynd: Landfari

Þú ert aðeins að misskilja þetta. Landinn fór að taka lán í belg og biðu út á húsin sín þegar hann gat tekið þau án þess að vera að kaupa húsnæði.

Það er grundvallarmunur á húsnæðislánum bankanna og Íbúðalánasjóði að íbúðalánasjóðir gerði þá kröfu að þú værir að kaupa íbúð. Það gerðu bankarnir ekki heldur lánuðu hægri vinstri út á íbúðir. Það hefði sáralitlu máli skipt hvort vextirnir hefðu verið prósentunni hærri eða ekki.

Hinsvegar hefðu þeir sparisjóðir sem nú standa sem best, flestir verið komnir á hausinn.

Landfari, 16.1.2009 kl. 16:39

6 Smámynd: Jón Þór Ólafsson

Húsnæðisverð rauk upp um nokkur hundruð prósent á nokkrum árum vegna ódýrra útlana bankanna. Seðlabankinn hefði getað með hærri bindiskyldu gert þau mörg prósentum dýrari.

Þetta hefði einning gert lán bakanna út á íbúðir sem fólk þegar átti það dýr til lengri tíma að fólk hefði aldrei geta eignast íbúðirnar sína, og það er staða sem flest fólk vill ekki vera í.

En svaraðu endilega spurningunni sem ég spurði: "Hvaða vit er í því að lækka bindiskylduna trekk í trekk og afnema hana svo með öllu á húsnæðislánum þegar ofurþensla er á húsnæðsmarkaði?"

Jón Þór Ólafsson, 16.1.2009 kl. 17:32

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Af þessum skoðanaskiptum er það helst að sjá að fækka megi um alla bankastjóra Seðlabankans. Jafnvel að Seðlabankar séu í raun óþarfir og að fjármálstjórn þeirra sé eitthvað óljósari en svarið við spurningunni um líf á Mars. 

Í stuttu máli sýnist mér á svörum Landfara að á þessu bankahruni beri ekki nokkur maður ábyrgð né stjórnsýslustofnun. Þetta er auðvitað ekki bjóðandi.

Ef gjaldeyrissjóðir þjóðar eru komnir niður fyrir lágmörk sem skilgreind eru hjá alþjóðlegum eftirlitsstofnunum og álitsgjöfum er voðinn vís og um það höfum við verið upplýst nægilega vel og fundið á eigin skinni. Þjóðinni er sagt að treysta á stjórn Seðlabankans í gjaldeyrismálum og fjármagnsstýringu ríkissjóðs. Ef þessi skilgreining er óljós þá var það mikið slys að fela þessari stofnun yfirstjórn þess manns sem hleypti af stað einkavæðingu bankanna án þess að gæta þeirrar varkárni að setja þær lagareglur sem nauðsyn var á.

Reyndar var öll hans vinna við stjórnsýsluna eitt samfellt stórslys. 

Ég hef það eftir virtari mönnum en Landfara á alþjóðavettvangi viðskiptahagfræði að forða hefði mátt þessu þjóðargjalþroti ef Seðlabankinn og öll önnur kerfi stjórnsýslunnar hvað varðar erlenda viðskiptastarfsemi hefðu ekki brugðist við eins og örgustu glópar.

Árni Gunnarsson, 16.1.2009 kl. 20:01

8 Smámynd: Landfari

Ég er búinn að því. Bankarnir sem eru eingöngu á innlendum markaði hefðu allir orðið ósamkeppnishæfir ef bindiskyldan hefði ekki verið lækkuð. Nógu erfið var staða þeirra samt.

Bindiskyldan fer ekki eftir í hvað er lánað þannig að þú getur ekki sett einhverja bindiskyldu á húsnæðislán en ekki önnur lán. Fyrir nú utan að það væri miklu nær að setja hærri vexti á neyslulán en húsnæðislán. Stóri gallinn á kerfinu var að þessi svokölluðu húsnæðislán bankanna voru að stórum hluta neyslulán en ekki húsnæðislán.

Stærri bankarnir sem voru fjármagnaðir með erlendum lánum voru í svo miklu sterkari stöðu því bindiskildan tekur ekki til erlendu viðskiptanna. Þess vegna hefði bindiskyldan ekki haft nein áhrif að bankarnir fóru á hausinn.

Ég get ítrekað það við þig enn og aftur að húsnæðislánin höfðu lítið sem ekkert með það að gera að bankarnir fóru á hliðina. Þau hafa hinsvegar allt að gera með það hve staða margra heimila er slæm núna. Það má eins færa rök fyrir því að staða þeirra væri enn verri en hún er, ef vextir af þeim lánum væru hærri.

En það er augljóst að þú ert búinn að finna þína skýringu á efnahagshruninu og skalt bara halda þig við hana. Þú ert ekki eini besservisserinn til að halda að allt sem miður fer sé Dabba að kenna án þess að geta rökstutt það. Það er engin þörf á að bæta óverðskulduðum verkum á hans afrekalista.

Landfari, 16.1.2009 kl. 20:04

9 Smámynd: Jón Þór Ólafsson

Ef það er rétt hjá þér að glufur séu í lögunum um bindiskyldu sem þýddi að erlent lánsfé hafi ekki veri bindiskylt samkvæmt bindiskyldureglum Seðlabankans, hvers vegna breytti Davíð þá ekki reglunum til að þær tæku til þessa erlenda fjármagns?

Ef það var ekki mögulegt fyrir hann að leiða inn slíkar breytingar hvers vegna lagði hann þær ekki til við Alþingi? Hafi hann gert það og Alþingi gert ekkert, sem þýddi að hann gat ekki tryggt: "Meginmarkmið Seðlabanka Íslands (sem) er að stuðla að stöðugu verðlagi,"hvað var hann þá að stija áfram sem Seðlabankastjóri?

Hann var ráðinn í gríðarlega mikilvægt starf fyrir þjóðina: "að stuðla að stöðugu verðlagi." Hafi hann ekki geta sinnt því vegna eigin takmarkanna eða annarra, hefði hann átt að lýsa því yfir við þjóðina og segja af sér.

og Davíð gat þar að leiðandi e

Jón Þór Ólafsson, 17.1.2009 kl. 17:03

10 Smámynd: Landfari

Það er áttur fjármálaeftirlitsins sem er stórlega vanmetinn i aðdraganda hruns bankanna. Eins má átelja alþingi fyrir að hafa ekki sett lög sem takmörkuðu heimildir bankanna til að starfa erlendis á ábyrðgð þjóðarinnar.

Því miður verður að viðurkena að seðlabnkinn hafði ansi bitlaus vopn til að berjast við þensluna þegar ríki og sveitarfélög kynntu undir henni.

Annars finnst mér það reginhneyksli að bankamálaráðherrann og seðlabankastjóri hafi ekki talst við í á annað ár. Mér er óskiljanlegt hvernig svoleiðis staða getur komið upp og hvor ber meiri ábyrgð á þeirri uppákomu?

Árni minn, stýrivextir, bindiskylda og gjaldeyrisvarasjóður er sinn hver hluturinn. Ég hef ekkert skrifað um gjaldeyrisvarasjóðinn svo þú verður að eiga það við þig og þín gleraugu hvernig þú lest eitthvað um hann úr mínum skrifum.

Landfari, 18.1.2009 kl. 01:18

11 Smámynd: Jón Þór Ólafsson

Fjármálaeftirlitið, ráðherrarnir, Davið og co í Seðlabankanum og bankastjórar viðskiptabankanna, eru öll ábyrg á hruninu.

Allt þetta fólk þarf að víkja og draga til ábyrgðar og þar sem ástandið er að versna mun sumt þetta fólk enda á haugunum. Vonandi sem flestir.

Jón Þór Ólafsson, 18.1.2009 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband