Alvarleiki Wintris eru hagsmunir SDG við haftalosun
12.5.2016 | 13:55
Sigmundur Davíð hefur haldið því fram að Wintris félag konu hans hafi alltaf greitt skatta. Það má vera. Það mál snýst um einhverjar milljónir. Stóramálið er hins vegar að kona Sigmundar hafði sem eigandi Wintris og því kröfuhafi í föllnu bönkunum fjárhagsmuni að gæta í haftalosunarferli eiginmanns síns. Það mál varðar hundruð milljarða.
Deilt er um hvaða hagsmuni Sigmundur lét víkja við val á leiðum til haftalosunar, hagsmuni landsmana eða fjárhagsmuni konunnar hans. Sjálfur segist hann hafa fórnað hagsmunum konu sinnar. Ekki er þó deilt um að á síðustu stundu í haftalosunarferli ríkisstjórnar Sigmundar þá var skipt um stefnu. Í stað þess að leggja útgönguskatt á alla kröfuhafa þá var kröfuhöfum boðið að greiða stöðugleikaframlag í stað stöðugleikaskatts. Framlag kröfuhafanna varð 384 milljarðar í stað stöðuleikaskatts upp á 620 milljarða, samkvæmt Fjármálaráðuneytinu og Seðlabanka Íslands.
Kona Sigmundar hefur sagt opinberlega að hún sé kröfuhafi og makar hafa alltaf fjárhagslega hagsmuni af fjárhag maka síns þó að um séreign sé að ræða. Það eru alþjóðlega viðurkenndir góðir stjórnhættir að fólk sem velji að fara með almannavald forðist svona hagsmunaárekstra, en sé það ómögulegt að upplýsa þá um þá. Hjónin gátu ekki bæði haldið í sitt, Sigmundur í drauminn um sæti í ríkisstjórn og konan hans í kröfur Wintris, án þess að búa til hagsmunaárekstra sem alþjóðasamfélagið hefur sameinast um að skuli réttilega forðast. Sigmundur ætlaði skiljanlega ekki að sleppa stjórnmálaferlinum, en félög eins og Wintris eða kröfur þeirra er hægt að selja. En þau ákváðu bæði að halda í sitt og hafa hljótt um það.
Stóru hagsmunirnir eru ekki skattskil konu Sigmundar, alvarleiki Wintrismálsins er fyrst og fremst að sem æðsti valdamaður landsins hafði Sigmundur Davíð hagsmuni að gæta beggja vegna borðsins þegar kökunni var skipt milli landsmanna og kröfuhafa við losun hafta og hélt því leyndu fyrir þjóðinni.
Hátt í 400 milljónir í skatta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þú segir að stóra málið sé hins vegar að kona Sigmundar hafi sem eigandi Wintris og því kröfuhafi í föllnu bönkunum fjárhagsmuni að gæta í haftalosunarferli eiginmanns síns.
En fellur ekki þessi málatilbúnaður þinn um sjálft sig þar sem kona Sigmundar mun ekki hafa gert neinar kröfur í föllnu bankana, ekki satt?
Daníel Sigurðsson, 12.5.2016 kl. 20:50
Áhugaverður punktur.
Hún hafði kröfur og var því kröfuhafi. Hefurðu heimildir fyrir því að hún hafi ekki gert kröfu um að fá greitt úr þrotabúum föllnu bankanna?
Jón Þór Ólafsson, 13.5.2016 kl. 20:16
Ekki ætla ég að mæla því bót að SDG greindi engum frá því hvernig málum þeirra hjóna var háttað. Það má hins vegar ímynda sér að á einhverjum tímapunkti hafi þær ráðstafanir sem þau gerðu vegna eigna eiginkonu hans (á meðan hagir þeirra voru aðrir), málað SDG út í horn varðandi það að gera þetta opinbert. Á ensku; "damned if you do and damned if you don't". Hver hefðu líka viðbrögðin orðið ef hún hefði selt "hrægammasjóðum" kröfurnar?
Það eru samt ákveðnir punktar sem ég næ ekki að koma heim og saman varðandi meintan hagsmunaárekstur (mögulega vegna þess að ég sé svona heiftarlega siðblindur). Þótt sumir hafi haft óbilandi trú á SDG (ég er ekki einn þeirra), þá þykist ég vita að hann hafi ekki aleinn og óstuddur séð um að semja við kröfuhafa föllnu bankanna (aðeins Pútin gæti gert slíkt). Ég geri heldur ekki ráð fyrir að eiginkona hans hafi haft mikið um það að segja hvernig kröfuhafarnir sömdu á endanum (kröfur hennar hafa varla verið mikið meira en auramismunur í heildarupphæðinni).
Það var frá upphafi lagt upp með "ógn og hvata" og það duldist engum að lagaleg óvissa vegna ógnarinnar (skattsins) var mjög mikil. Það voru reyndar líka uppi efasemdaraddir um að hægt yrði að semja um hvatann (stöðugleikaframlagið), að kröfuhafarnir myndi aldrei samþykkja slíka "eignaupptöku". Ef ég man rétt var síðan nokkuð almenn ánægja með samningana þegar þeir voru í höfn, jafnt meðal sjórnarliða og sjórnarandstöðu. Samningunum var jafnvel lýst þannig að þeir væru lygilega góðir fyrir ríkið og að þetta hefði hvergi verið gert annars staðar.
Til þess að meintur hagsmunaárekstur hefði getað átt sér stað, hefðu þau hjónin þurft að semja um þetta sín á milli (kannski yfir morgunkaffinu). Þótt máttur SDG hafi líklega verið meiri en margur vildi, þá tel ég alveg útilokað að hann hefði getað sannfært alla þá embættismenn og sérfræðinga sem að samningunum komu (úr m.a. Stjórnarráðinu og Seðlabankanum) um að sú leið sem kæmi eiginkonu hans hvað best væri eina rétta leiðin. Ef svo hefði verið, þá hefði ekki ein einasta króna farið frá kröfuhöfunum til ríkisins.
Ef lögin um hæfi einstaklinga til stjórnvaldsákvarðana eru skoðuð, þá er sérstaklega tekið fram að forstöðumaður stofnunar ákveður sjálfur um hæfi sitt ef álitamál snýr að honum sjálfum. Ef við efumst um hæfi kjörinna fulltrúa til þess að hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd, þá er einfaldlega ekkert hægt að gera (hver yrði þannig hæfur til að standa að breytingum eigin skatta eða lífeyrisréttinda?).
Með því að gefa í skyn að SDG hafi látið semja um stöðugleikaframlag til þess eins að hygla eiginkonu sinni (því ekki samdi hann einn og sjálfur fyrir hönd ríkisins), þá tel ég að þar með sé kastað rýrð á starf allra þeirra sem að þessum samningum komu fyrir hönd ríkisins. Það þarf enginn að segja mér að allur sá hópur hafi verið sem viljalaust verkfæri í höndum þáverandi forsætisráðherra.
TJ (IP-tala skráð) 13.5.2016 kl. 22:07
Heyrðu, ég biðst innilega forláts á fyrri athugasemd, eftir að ég náði að melta þetta betur þá sé ég núna ljósið - og einbeittan brotavilja SDG.
Þannig var að eiginkona SDG sá fram á að tapa peningum vegna þess að hún lét glepjast til að kaupa skuldabréf af fyrirtækjum sem síðan kom í ljós að var stjórnað af mönnum sem að endingu voru dæmdir fyrir glæpsamlegt athæfi við rekstur þessara fyrirtækja.
Þá fékk SDG hugmynd, mjög góða hugmynd - hann sagði við eiginkonu sína; væna, ég er búinn að átta mig á því hvernig við lágmörkum tjónið. Ég býð mig fram til formanns í stjórnmálaflokki og kem því inn í stefnuskrá flokksins að það eigi að hirða haug af peningum af vondu kröfuhafahrægammaköllunum. Allir hinir segja að þetta sé ekki hægt, bara vegna þess að þeir fengu ekki svona frábæra hugmynd (og eiga ekki ríka eiginkonu).
Svo þegar flokkurinn vinnur stórsigur í alþingiskosningum og ég verð orðinn forsætisráðherra og þykist vera voða vondur við vondu kallana, þá segi ég bara "allt í plati" og hirði bara rúmlega helminginn af því sem ég sagðist ætla að gera - og þá verður meira eftir handa þér! Reyndar voru þetta víst víkjandi skuldabréf þannig að þú færð hvort sem er svo sem ekki neitt, neitt. Í kaupbæti verð ég líka heimsfrægur klaufi (a.m.k. í fáeina daga). Hvað getur klikkað?
Mundu bara að segja engum frá þessari áætlun, því fólkið í þessu bananalýðræði mun ekki geta skilið að ég er bara að gera þetta fyrir þig (og mig).
TJ (IP-tala skráð) 13.5.2016 kl. 22:58
Afsakaðu Jón Þór en ég sá fyrst núna viðbrögð þín við athugasemd minni hér að ofan þar sem þú spyrð hvort ég hafi heimildir fyrir því að hún (kona Sigmundar) hafi ekki gert kröfu um að fá greitt úr þrotabúum föllnu bankanna.
Því er til að svara að þegar ég skrifaði athugasemd mína byggði ég hana á eigin minni. Við snögga leit núna að heimildum fann ég eftirfarandi haft eftir SDG í DV frá 27.03.16. Sigmundur Davíð: Wintris ekki í skattaskjóli – (Sjá millifyrirsögn: Hafði þátttaka Sigmundar í stofnun InDefence hópsins.......):
„Að auki er krafa Wintris í þrotabú Landsbankans til komin vegna kaupa á víkjandi skuldabréfi bankans og frá upphafi mátti því vera ljóst að krafan var einskis virði, enda var henni hafnað af slitastjórn bankans.“
Daníel Sigurðsson, 13.5.2016 kl. 23:41
Jæja Jón Þór. Nú er ég nokkuð hissa á pælingum þínum. Ég hélt að þú hefðir þekkingu til að gera greinamun á almenmnri viðskiptakröfu og hins vegar kröfu vegna eignarhlutar. Það er nokkuð langt síðan endanlega var gengið frá hlutfallsgreiðslum allra slitabúanna vegna viðskiptakrafna í slitabúin. Kröfur Wintris voru rúmar 500 milljónir en ekki allar samþykktar eins og fram hefur komið hér á síðunni. Samþykktar kröfur Wintris voru rétt um 280 milljónir og var sú niðurstaða löngu orðin ljós áður en farið var út í samninga við slitabúin um greiðslur til vogunnarsjóðanna vegna eignakrafna þeirra.
Mér finnst með ólíkindum hve auðvelt er að setja alla umræðu í landinu á annan endan með afar illa samansettum ósannindum, þar sem sögumaðurinn sjálfur skítur hvað eftir anna fæturna undan því sem hann er að reyna að búa til. Í kastljósþættinum kemur fram að Wintris var aldrei skráð eign SDG að hálfu, heldur eignfærðist félagið frá Mossack Fonseca til Landsbankans í Lúx undir lok ársins 2007 og var enn eign Landsbankans á miðju ári 2009, eins og einnig kemur fram í kastljósinu. Þá er einnig ljóst að Wintris hefur aldrei verið skráð sem sjálfstæður skattaðili. Þau skjöl og það ferli sem birtist í kastljósinu bendir eindregið til að Wintris sé svonefnd einkafélag, sem rekið er alfarið á ábyrgð og á kennitölu eigandans. Það staðfestist af þeim upplýsingum sem komið hafa fram bæði hjá SDG, Önnu konu hans og KPMG endurskoðun, um að niðurstöður frá rekstraryfirliti Wintris færist í framtal Önnu sem eiganda félagsins. Þar sé skráðar eignir og tekjur frá Wintris á hverju ári. Þar sem félagið er ekki sjálfstæður skattaðili er ekki heldur hægt að krefjast sérstaks skattframtals frir það.
Ég vona svo sannarlega að þjóðin fari að hætta að gera sig að viðundrum og hreinum kjánum með heimskulegu ofstæki út í eina stjórnmálaleiðtogann sem af ríkim vilja vildi reisa við efnahag þjóðarinnar og var kominn vel á veg með það þegar þessi heimskulega vitleysa var sett af stað.
Guðbjörn Jónsson, 14.5.2016 kl. 16:22
Sko Jón Þór. Nú er þetta mál að baki. Það sem þú getur hins vegar malað og tenglað á þetta mál er alveg með ólíkindum. Þetta mál skiptir engu í dag lengur að öðru leyti en því að það er hægt að draga lærdóm af því. Það sem veldur mér áhyggjum er hins vegar ef þú ætlar að halda áfram að mala í sama dúr á næsta þingi. - Almennt séð er ég farinn að hafa áhyggjur af of miklum völdum reynslulausra Pírata á næsta þingi, sérstaklega ef þeir komast í ríkisstjórn.
Árni Stefán Árnason, 28.8.2016 kl. 02:54
Árni Stefán og reynsla gamalla alþingismanna hafa skilað svo góðum árangri á þingi hingað til? Er ekki einmitt að breytast núna áherslur og opnari umræður einmitt með nýju fólki? Veit til dæmis að hingað til hefur aldrei mátt ræða óskilvirkni kvótakerfisins og misréttið sem þar viðgengst, vegna þess að það hefur verið þaggað endalaust niður síðan 1992 minnir mig, af leiðitömum alþingismönnum sem jafnvel hafa fengið drjúga peninga í kosningasjóði fyrir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.8.2016 kl. 13:23
Það eru margir sem eiga erfitt vegna hátternis Sigmundar Davíðs sem setti þetta mál á dagskrá aftur með því að fara með ósannindi í kosningasjónvarpi.
Svo hressilega að allt fór upp í loft í Framsóknaflokknum. Heilindi manna eru auðvitað alltaf á dagsskrá.
Fyrir þig Arni vil ég bara segja þetta:
Stjórnmálamenn verða að segja satt. Hér eru leiðréttingar á þremur rangfærslum Sigmundar Davíðs í leiðtogaumræðunum á RÚV í gær:
1. Það er rangt hjá Sigmundi að hann hafi aldrei átt aflandsfélag. Hann átti aflandsfélagið Wintris Inc. með konu sinni til ársloka 2009. Tekjur af fjármagni eru í skattalegu tilliti sameiginlegar hjónum og eignin sömuleiðis.
2. Það er rangt hjá Sigmundi að Tortóla sé ekki skattaskjól. Tortóla er skattaskjól. Skattaskjól eru landsvæði sem ekki leggja á tekjuskatt eða mjög lágan. Tvísköttunarsamningur við Bresku Jómfrúreyjar er takmarkaður og nær ekki til félaga eins og Wintris Inc. Upplýsingaskiptasamningurinn er að undirlagi OECD gerður við ríki sem teljast skattaskjól og er öfugt við það sem Sigmundur heldur fram staðfesting á því að Tortóla er skattaskjól.
3. Það er rangt hjá Sigmundi að hann hafi sýnt fram á rétt skattskil vegna Wintris Inc. Þau skjáskot úr excelskjali sem Sigmundur hefur lagt fram sanna ekki neitt í þeim efnum. Skattyfirvöld eru ein bær til þess að meta hvort skattskil og skattlagning er rétt. Til þess þurfa þau að fá allar upplýsingar sem kveðið er á um í lögum og reglugerðum. Eina leiðin til að sýna fram á rétt skattskil vegna Wintris Inc. er að birta ársreikninga félagsins og skattskýrslur þeirra hjóna. Það hefur ekki verið gert og á meðan svo er getum við ekki vitað hvort Sigmundur og kona hans greiddu skatta af Wintris Inc. í samræmi við íslensk lög. Rangfærslur Sigmundar eru vanvirðing við fólkið í landinu. Kjósendur eiga heimtingu á því að kjörnir fulltrúar segi satt og rétt frá.
Kristbjörn Árnason (IP-tala skráð) 24.9.2016 kl. 16:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning