Málþóf og málskot, svo þjóðin eigi síðasta orðið.
27.6.2013 | 11:06
Eftirfarandi bréf sendi ég forseta vor í morgun:
__________________________________
Hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands.
Yfir 34.000 Íslendingar hafa skorað á þig sem forseta landsins að undirrita ekki lög um lækkun á veiðigjöldum, sem taka til breytinga á lögum nr. 74/2012 frá 26. júní 2012, ef Alþingi samþykkir þau, heldur vísa þeirri ákvörðun í þjóðaratkvæði til eigenda fiskveiðiauðlindarinnar, íslensku þjóðarinnar.
Sjá: http://www.petitions24.com/obreytt_veidigjald
Þú hefur reynst þjóðinni vel sem vaktmaður hennar yfir málskotsrétti forsetans, öryggisventli þjóðarinnar. Þú varðst við áskorun 32.000 Íslendinga um að hafna staðfestinu fjölmiðlalaganna árið 2004 og sagðir þá: Því miður hefur skort samhljóminn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli. Fjölmiðlarnir eru sá hornsteinn í lýðræðisskipan og menningu okkar Íslendinga að ekki er farsælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Slíka gjá þarf að brúa. Það verður best gert með því að þjóðin fái í hendur þann rétt sem henni er veittur í stjórnarskrá lýðveldisins og meti lagafrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú er aftur gjá milli þings og þjóðar.
Sjá: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1316527/
Í aðdraganda forsetakosninga í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni fyrir rúmu ári sagðir þú réttilega um kvótamálið að: Þar er um að ræða ráðstöfun á sameign þjóðarinnar. Þar er um að ræða hvað þjóðin, eigandi auðlindarinnar, fær í sinn hlut. Það er erfitt að hugsa sér stærra mál en það, sem myndi vera eðlilegt að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef einhver hluti þjóðarinnar telur það mikilvægt, Þar sem lögin sem núna liggja fyrir Alþingi snúast um það að lækka það sem þjóðin, eigandi auðlindarinnar, fær í sinn hlut, þá binda yfir 34.000 Íslendingar vonir við það að þú vísir þessu máli til þjóðarinnar. En til þess þarftu að vera á landinu.
Í ljósi þessa þá spyr ég sem þingmaður Pírata, með beint lýðræði í grunnstefnu, hvort þú munir fresta utanlandsferðum þar til þingið hafi afgreitt umræddar lagabreytingar, og ef meirihluti þingsins hyggst samþykkja lögin fyrir áætlaða heimkomu þína 1. júlí, hvort þú munir flýta heimförinni til að hafa sjálfur málskotsvaldið. Að öðrum kosti mun málskotsvaldið, öryggisventill þjóðarinnar vera hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra (Framsóknarflokki), Einari K. Guðfinnssyni forseti Alþingis (Sjálfstæðisflokki) og Markúsi Sigurbjörnssyni, forseti Hæstaréttar, en tveir þeirra eru í þeirri ríkisstjórn sem lagði frumvarpið fram og munu án efa undirrita lögin án beinnrar aðkomu þjóðarinnar að málinu.
Ef þú hyggst ekki fresta utanlandsferðum þar til þingið hafi afgreitt umrædda lagabreytingu þá bið ég vinsamlegast um upplýsingar um hvenær þú munt án efa dvelja á Íslandi frá 1 til 15. júlí. Með öðrum orðum þá er mikilvægt fyrir okkur 34.000 Íslendingar sem vinnum að beinu lýðræði í þessu máli að vita hvenær og hvort við getum treyst því að forsetinn okkar muni hafa hendina á öryggisventli þjóðarinnar til að skjóta málinu til hennar.
Þetta þurfum við að vita. Þjóðin þarf að vita hvort þú hyggst halda á öryggisventli hennar í þessu mikilvæga máli.Við þingmenn Pírata þurfum að vita hvort og þá hvenær við þurfum að nota þau verkfæri sem kjósendur okkar treystu okkur fyrir til að auka beint lýðræði, eins og málþófi, þar til þú kemur aftur til landsins til að beita því valdi sem þjóðin treysti þér fyrir, málskotsrétti forseta embættisins, öryggisventli þjóðarinnar. Okkur þætti vænt um að vita hve lengi við þingmenn Pírata þurfum að þæfa málið þar til þú kemst til landsins til að taka við málskotsréttinum úr höndun stjórnarliða?
Við þurfum upplýsta umræðu um sjávarauðlindina og hvað þjóðin, eigandi auðlindarinnar, fær í sinn hlut. Fyrir tilstuðlan þín höfum við lært að aðdragandi þjóðaratkvæðagreiðslna er frjór jarðvegur fyrir upplýsta umræðu í samfélaginu og skapar grundvöll fyrir þjóðarsátt. Það er réttlátt, praktískt og mikilvægt að þjóðin fái að eiga lokaorðið um sinn hlut við ráðstöfun á sameign sinni. Eða telur þú að eitthvað annað í málinu vegi þyngra en það?
Með von um skjót og skýr svör,
Jón Þór Ólafsson.
Þingmaður Pírata.
P.s. Reynt er að réttlæta að þess lög séu afgreidd á sumarþinginu með því að án þeirra verði ekkert veiðigjald innheimt á næsta ári. En ég þráspurði gesti Atvinnuveganefndar, sem fer með málið, hvort ekki væri hægt að leggja á gjöld sem samsvara þessum veiðigjöldum og skilaði þjóðinni því sem áætlað var. Svör gestanna, sama hvort þeir voru með eða á móti frumvarpinu, voru að slíkt væri vissulega hægt og komu með margvíslegar útfærslur á slíkri gjaldtöku. Þjóðin verður því ekki af sínum hlut þótt þú skjótir málinu til hennar og hún synji því.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.6.2013 kl. 00:12 | Facebook
Athugasemdir
Það er vissulega rétt að þjóðin fái að ákveða þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu.Með því er allri óvissu eitt.Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að leggja eigi þessi veiðigjöld af og er þar sennilega í minnihluta.Þessa skoðun rökstyð ég með því að ég tel að sjávarútvegurinn eigi mikla vaxtamöguleika sem yrðu skertir með auknum álögum.Þessi veiðigjöld koma illa við litlar útgerðir og nýliðun verður minni.Ef veiðigjöldunum yrði sleppt mun hagnaður eigenda auðlindarinnar(þjóðarinnar)verða meiri en sem nemur veiðigjöldunum.
Jósef Smári Ásmundsson, 27.6.2013 kl. 13:23
Áður en þessi óræða undirskriftasöfnun verður marktæk, er ekki rétt að athuga hvort Obama, Mikki Mús og ónefndar klámmyndastjörnur sem skrifað hafa undir hafi kosningarétt á Íslandi?
Það gerði málið allt trúverðugra. Já og kannski athuga hve margar undirskriftir eru frá sömu IP tölu og hvort viðkomandi hafi virkilega skrifað undir af eigin vilja og rammleik.
Kannski væri rétt að byrja upp á nýtt með betur útlistaðri kröfu og marktækara platformi en þessi viðvaningslega söfnun stendur á.
Jón Steinar Ragnarsson, 27.6.2013 kl. 13:55
Þetta er algjörlega sambærileg undirskriftasöfnun og aðrar slíkar sem Ólafur hefur tekið mark á. Hann hlýtur að kanna áreiðanleika hennar sjálfur eins og hann hefur gert við aðrar. Í flestum undirskriftasöfnunum á Netinu eru dæmi um bullundirskriftir eins og þessa, þannig að þetta er ekkert nýtt.
Tilraun þín til að gera lítið úr þessari undirskriftasöfnun er aum og þér ekki til sóma.
Sigurður (IP-tala skráð) 27.6.2013 kl. 14:17
Til að fyrirbyggja misskilning var athugasemd minni beint til Jóns Steinars
Sigurður (IP-tala skráð) 27.6.2013 kl. 14:19
Jón Steinar: Sama IP tala á nokkrum eða mörgum undirskriftum þarf ekki að þýða neitt. það t. d. eru allir sem nýta net í gegnum farsímakerfi notast öll við sömu IP töluna, t.d. get allir með farsíma og/eða netþjónustu frá Nova verið öll á sömu IP tölunni. Fólk gat hafa verið statt á kaffihúsum eða nýtt Wifi þjónustu á fjölförnum svæðum.
Þú hefur kannski farið betur yfir listan en ég en ég varð ekki var við neinar einkennilegar undirskriftir, en þú hefðir getað tilkynnt mögulegar falsanir til aðstandenda undirskriftirnar ef þú hafðir áhyggjur, slík lausn er í boði.
Einar (IP-tala skráð) 27.6.2013 kl. 14:48
Ég sé að það er beðið um kennitölu, þegar skrifað er undir þennan lista. Undir venjulegum kringumstæðum myndi ég gera ráð fyrir því að það sporni gegn plat undirskriftum á borð við Mikka Mús en þar sem þetta er erlend síða, geri ég ráð fyrir að þetta sé ekki tengt við þjóðskrá.
Allavega þá kveikir það undir þeirri spurningu að fyrst að undirskriftarlistar hafa náð svona miklum vinsældum, hvort að það undirstriki ekki þá þörf að hafa auðaðgengilega Íslenska síðu með fyrirframnefndri þjóðskrátengingu, svo að menn eins og Jón Steinar hafi ekki ástæðu til að koma með svona ásakanir.
Já, og svo var orðið sem þú varst að leita af "vettvangur", ekki "platform". Enskuslettur eiga ekki heima í texta hjá fólki sem vil taka sig alvarlega.
Einar Örn Gissurarson, 27.6.2013 kl. 15:07
Það eru líka bullkennitölur þarna Einar. Þessi síða er ekki samkeyrð við þjóðskrá. Þú getur raunar skrifað hvað sem er þarna og það telst sem undirskrift. Það sem ég er að benda á er að sýna lýðræðinu smá respekt og hafa platformið marktækara og öruggara. Mönnu þykir það greinilega einhverskonar guðlast hér af heilagri hneykslan að dæma.
Ég er annars sammála veiðigjaldi ef það meikar einhvern sens. Ég get ekki sett nafn mitt undir þetta af því að mér er ekki ljóst hvað um er að ræða. Hvort ég er að vinna okkur til gagns eða skaða. Um þetta eru skiptar skoðanir og rökstuðning svart á hvítu skortir á báða bóga.
Ég held að þetta sé því alfarið á tilfinninganótum eins og er og án málefnalegs rökstuðnings.
Það að þessi söfnun sé sambærileg við aðrar gallaðar safnanir eru ekki rök fyrir því að þessi sé rétt og heiðarleg. Það er eins og að segja að það sé í lagi að ljúga af því að flestir geri það.
Þetta er mikilvægt mál og getur haft djúp áhrif á afkomu okkar á báða bóga. Ef það á að velta á móðursýki og óupplýstri múgsefjun, þá erum við á slæmum stað.
Jón Steinar Ragnarsson, 27.6.2013 kl. 15:21
1. Um er að ræða fiskveiðiauðlind, sameign íslensku þjóðarinnar. Ekki einkaeign sitjandi ríkisstjórnar, og því síður nokkurra auðmanna og kvótagreifa. Það eitt og sér, er nóg ástæða til að þjóðin eigi að fá að kjósa um það.
2. IP tölur hafa sjaldnast nokkuð um málið að segja, þar sem ein fjölskylda (með t.d. 2-3 (eða fleiri) kosningabæra einstaklinga), getur þess vegna notað sömu tölvuna til að skrifa nöfn sín og kennitölur.
3. Nöfnin sem Jón Steinar Ragnarsson gaf upp eru í svo gífurlegum minnihluta (innan við 20 ef mér telst rétt til) að þau hafa nákvæmlega ENGIN áhrif á heildarlistann. Jafnvel þó þau væru 1000 myndu þau samt ekki hafa áhrif á heildartöluna. Sem dæmi má nefna að forseti Íslands neitaði að samþykkja fjölmiðlafrumvarpið á sínum tíma, en þar höfðu safnast 31.752 undirskriftir.
Þessi listi er því vel marktækur, og vonandi að hann skili tilætluðum árangri.
Sævar Sævarsson (IP-tala skráð) 27.6.2013 kl. 15:38
Sævar, ég get sest með símaskránna og skrifað upp nöfn og skáldað upp kennitölur eftir behag. Það er kjarni málsins. Getur þú séð hvort kennitölur við nöfn erú réttar?
Annars varðandi það sem um er rætt, þá veit enginn hvað verið er að kjósa um. Þar ræður tilfinningasemin alfarið. Meira að segja alþjóðastofnunum greinir á um þetta og skipta um skoðun jafnvel á milli ára. Flokkar eru klofnir og þingheimur er klofinn, en þeir sem halda könnuninni úti vilja sannfæra fólk um að einhver mafía með annarlega hagsmuni stjórni þessu.
Hér er ný frétt um þetta fyrir þá sem nenna að fylgjast með og horfa málefnalega á þetta.
http://www.dv.is/frettir/2013/6/27/aaetlud-haekkun-veidigjalda-mikil-samkvaemt-gildandi-logum/
Eru allir þessir 34.000 með þetta á hreinu? Er ekki nær að ætla að langmestur mwirihluti hafi ekki hugmynd um það hvað þeir eru að skrifa undir? Það er kannski það vafasamasta við þetta allt, hvort sem nöfn eru fölsuð inn eða ekki.
Jón Steinar Ragnarsson, 27.6.2013 kl. 15:52
"Það eru líka bullkennitölur þarna Einar. Þessi síða er ekki samkeyrð við þjóðskrá."
Jú, ég gerði náttúrulega ráð fyrir því, enda tók ég það greinilega fram.
Einar Örn Gissurarson, 27.6.2013 kl. 16:11
Jón Steinar: Þú gast vel haldið sömu ræðuna varðandi Icesave umræðuna, að fólk væri bara skrifa undir plagg til að fá að skrifa undir mál sem það skildi ekki. Það er algjörlega "irrelevant", kjósendur taka loka ákvörðun.
En það er þá bara rétt leið að halda háværa og greinagóða umræðu um málið ef til kosninga kemur. Ólafur Ragnar eða hvaða sitjandi forseti sem er þarf að fara að fordæmi fyrri undirskrifta og setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Einar (IP-tala skráð) 27.6.2013 kl. 19:18
Leiðrétting "...til að fá að *kjósa* undir mál sem það skildi ekki."
Einar (IP-tala skráð) 27.6.2013 kl. 19:19
Jón Steinar :
Ég skil það sjónarmið, en nei ég get ekki séð hvort kennitölurnar á listanum séu allar réttar, frekar en þú (eða aðrir) að þær séu allar rangar. Það er það sem fylgir þegar undirskriftasöfnun á í hlut, hvort sem er á netinu eða þegar gengið er um götur borgarinnar að safna undirskriftum. Slíkum undirskriftalistum er komið af stað í góðri trú, að þeir sem láta sig málið varða, skrifa undir, meðan aðrir (sem ekki telja vert að skrifa undir) gera það ekki.
Ef við snúum okkur svo að málinu sem um ræðir, þá finnst mér þú taka of stórt upp í þig með þeirri staðhæfingu að "enginn viti hvað verið sé að kjósa um". Það eru vafalaust fjölmargir sem vita um hvað málið snýst, og hafa áreiðanlega allnokkrir kynnt sér málið til hlítar. Það að AGS eða OECD sé hlynnt eða mótfallið lækkun eða hækkun veiðigjalda (og hvort sem þingheimur eða tilteknir flokkar (eða jafnvel allir) séu klofnir) finnst mér ekki breyta þeirri staðreynd að það er fólksins í landinu að taka endanlega ákvörðun um sameiginlega auðlind.
Hvað varðar "annarlega hagsmuni", verður að líta til heildarmyndarinnar og spyrja : Er eðlilegt (miðað við gefin kosningaloforð og ástand heimila og fólks í landinu) að ný ríkisstjórn setji það sem eitt af fyrstu forgangsmálunum að breyta veiðigjaldi, vitandi hverju það getur skilað í kassann, en tala svo um hugsanlegar breytingar á fæðingarorlofum og sömuleiðis á þátttöku í tannlæknakostnaði barna?
Og það er auðvitað hrein og klár "tilviljun" að þeir flokkar sem nú mynda ríkisstjórn skuli ganga svo hart og fljótt í breytingu á veiðigjaldinu, eftir að hafa fengið hærri fjárframlög frá sjávarútvegsfyrirtækjum, en allir aðrir flokkar samanlagt, árin 2008-2011? Talandi um "annarlega hagsmuni". ;)
Ég hugsa að það þurfi ekki snilling til að læra af sögunni, og sjá að hér á landi viðgengst einnig "mafía" (misjafnt er þó orðaval hvers og eins). Það út af fyrir sig er þó efni í töluvert lengri umræður, og þetta er ekki réttur vettvangur fyrir þær.
Sævar Sævarsson (IP-tala skráð) 27.6.2013 kl. 19:38
Sævar,ég hef nú alltaf dregið samsæriskenningar í efa.Ég er ekki hrifinn af þessu nýja frumvarpi ráðherrans vegna þess að þar eru meiri álögur á uppsjávarfiskinn en í fyrra frumvarpi.Ríkisstjórnin virðist vilja fara einhverja sáttaleið í þessu og útgerðarfyrirtækin reyndar líka með því að minnka veiðigjaldið í stað þess að taka það af.þessvegna held ég að væri bara gott að skera úr þessu með þjóðaratkvæðagreiðslu.Og líka hvernig menn vilja hafa kvótakerfið.Þó ég sé hlynntur kvótakerfinu og móti veiðigjaldi þá finnst mér að það sé betra fyrir alla aðila að fá þessi mál á hreint.En hvað annað varðar þá verða Obama og Mikki Mús að gera grein fyrir því hvað þeir eru að skipta sér af íslensum innanríkismálum.
Jósef Smári Ásmundsson, 27.6.2013 kl. 21:04
Einar. Varðandi Icesave, þá skildu allir að um prinsippmál var að ræða. Það prinsipp að skattgreiðendur yrðu ekki gerðir ábyrgir fyrir falli einkabanka. Það fordæmi hefði fríað braskara af allri ábyrgð um alla framtíð. Það var prinsipp sem enginn ríkissjóður hefði staðið undir og því var reynt að kúga niðurstöðu framhjá lögum og dómi.
Þeir sem ekki vildu skilja þetta höfðu lítt svo hulin markmið um að spilla ekki inngönguferlinu í ESB.
Það voru ekki bara við sem önduðum léttar þegar dómurinn féll, því allar þjóðir og þing gerðu það. Enginn ríkissjóður stendur undir meiru en einum meðalstórum banka. Þessvegna er einmitt verið að festa þetta fordæmi í lög í ESB núna. Enn eins staðfestingin á því að þeir sem mótmæltu skildu málið rétt.
Meira að segja var hinn breski lögmaður sem varði okkur að fá viðurkenningu sem lögmaður ársins í Bretlandi. Landinu sem knúði harðast á að forðast dóm í málinu.
Svona samanburður er non sequitur.
Jón Steinar Ragnarsson, 27.6.2013 kl. 21:54
Við getum tekið nærtækara dæmi um klúður óupplýstra kjósenda. Það er fjölmiðlafrumvarpið sem rekið var af hagsmunaaðilunum sjálfum. Fjölmiðlunum. Þar jörmuðu sauðirnir með, þótt eðli málsins væri Að að koma í veg fyrir samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlamarkaði.
Baugsklíkunni tókst að eyðileggja það með hjálp vinstrimanna, og nú erum við að bíta úr nálinni með það. Hlutleysi er horfið og engin leið að kynna sér aððra fleti mála en þá fleti sem snúa að hagsmunum þeirrar klíku sem ræður fjölmiðlunum.
Áróðiurinn var jafn einhliða í aðdraganda þeirrar undirskriftasöfnunnar. Aðeins ein hlutdræg afstaða var leyfð og engin gat kynnt sér málið af viti og vissi því engin undir hvað hann var að rita í raun. Þetta var bara rekið á áróðri um vondu sjallana, samsærin og huldu hagsmunina sem aldrei fengust skýrðir. Það var tilfinningabarátta og móðursýki í stað rökhugsunnar og málefnaumræðu. Rétt eins og nú.
Jón Steinar Ragnarsson, 27.6.2013 kl. 22:05
Það er munur á IceSave og þessu fiskveiðiskattamáli.
Jafnvel í hryllilegu stjórnarskráni sem dó síðasliðinn vetur hefð ekki mátt setja þetta fiskiveiðiskattamál í þjóðaratkvæði, jafnvel SJS viðurkenndi það í þættinum Sprengjusandi.
IceSave var ekki skattamál, heldur óþarfar eyðsla á peningum almennings, þess vegna fór IceSave í þjóðaratkvæði.
Kveðja frá Houston.
Jóhann Kristinsson, 27.6.2013 kl. 23:03
Icesave var barrátta fyrir því að ekki væri lagt meiri birgarð á herðar íslenskum skattgreiðendum vegna gjörða einkafyrirtækja og einstaklinga, það var skattamál. Veiðigjaldi er baráttumál um rétt þjóðarinnar til að ráðstafa sameign sinni, það er ekkert minni "prinsipp" mál en Icesave.
Fjölmiðlafrumvarpið er ekkert betra dæmi nema að stjórnvöld ákveða að draga frumvarpið til baka eftir að forsetinn neitar að skrifa undir, það var aldrei gefið tækifæri á upplýstri umfjöllun í aðdraganda atkvæðagreiðslu því fjölmiðlalögin fór aldrei í atkvæði.
Einar (IP-tala skráð) 28.6.2013 kl. 13:13
birgarð = byrðar.
Einar (IP-tala skráð) 6.7.2013 kl. 20:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.