Þingsályktanir verða þá aftur bara bænaskjöl.
14.3.2015 | 19:09
Í lögfræðilegri samantekt skrifstofu Alþingis um gildi þingsáyktana Alþingis í upphafi þessa kjötímails segir að ályktannir Alþingis séu bindandi fyrir ríkisstjórnina þó þær séu ekki lagalega bindandi. Það er því ekki lögbrot að fylgja ekki ályktunum þingsins en það er brot á stjórnskipan landsins.
Vert er að undirstrika að allar ályktanir sem þingið hefur samþykkt og hafa ekki verið formlega afturkallaðar með nýrri ályktun teljast vera í gildi, eins og kemur fram í samantektinni og Forseti Alþingis hefur staðfest.
Jafnframt segir að ef ríkisstjórnin eða ráðherra hyggst ekki fylgja eftir ályktun þingsins beri þeim að eiga frumkvæði að því að upplýsa Alþingi um það með skýrslu ráðherra um afstöðu ríkisstjórnarinnar og ef breyta á málsmeðferðinni þá skuli leita afstöðu meirihluta þingsins með nýrri þingsályktun. Svo vanræksla krefst skýrslu en breytt málsmeðferð krefst nýrrar þingályktunnar.
Í umsóknar ályktun Alþingis frá 2009 segir: "Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar." En í því áliti í kafla um formlegar samningaviðræður segir m.a. um skipulag viðræðna að: "Aðilar skiptast á samningsafstöðu þar til sameiginleg niðurstaða hefur náðst þannig að loka megi viðræðum með formlegum hætti, kafla fyrir kafla." Þetta hefur ríkistjórnin vanrækt sem hún hefur heimildir til að gera en aðeins ef hún upplýsir Alþingi um það með skýrslu sem hefur ekki verið gert.
En með bréfi Utanríkisráðherra til yfirstjórnar Evrópusambandsins segir að ríkisstjórnin líti svo á að rétt sé að ESB lagi verklag sitt að bjargfastri afstöðu ríkisstjórnar Ísland að ekki skuli líta á Ísland sem umsóknarríki ESB. Í viðtali við fréttastofu RÚV sama dag segir Utanríkisráðherra: Við teljum að þessu máli sé lokið og ef menn vilja sækja um að nýju þá verði að leita til þjóðarinnar. En ef sækja þarf um að nýju þá hefur aðildarviðræðum verið slitið. Enda ef yfirstórn ESB verður við tilmælum ríkisstjórnar Íslands og taki Ísland út sem umsóknarríki í verklagi sambandsins þá hefur aðildarviðræðum verið slitið. Þetta er þvert á ályktun Alþingis. En slíkt er breytt málsmeðferð sem krefst nýrrar þingsályktunnar samkvæmt lögfræðilegri samantekt skrifstofu Alþingis. Annað er brot á stjórnskipan og þingræðisvenju Íslands þó að það sé ekki lögbrot.
Ef ríkisstjórnin kemst upp með að breyta málsmeðferð í þessu máli án nýrrar þingályktunar þá eru þingsályktanir ekki lengur bindandi fyrir ráðherra eins og skrifstofa Alþingis vill meina. Þá eru þingsályktanir aftur orðnar lítið meira en bænaskjöl til konungs. Þingsályktanir sem í dag eru í gildi væru þá í uppnámi. Forseti Alþingis og varaforsetar í forsætisnefnd bera ábyrgð á því hve lengi þessi óvissa varir. Því fyrr sem þeirri óvissu er eytt því betra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.3.2015 kl. 14:53 | Facebook
Athugasemdir
Nú er spurning hvort þingheimur vill breyta þessu og festa einhverja lögjöf sem kemur í veg fyrir slíkt. Ég er fullur efasemda um það og ljóst að allir eru tvöfaldir í roðinu hvað þetta varðar og vilja eiga þessa útleið fyrir sjálfan sig í handraðanum síðar, rétt eins og þeir hafa haft það fram að þessu. Lýðræðisumbætur í verki munu aldrei koma að frumkvæði þings. Kröfur um opinbera ábyrgð munu aldrei koma að frumkvæði þings.
Sama gildir um nokkuð sem síðasta ríkistjórn margtíundaði þegar þjóðaratkvæði um ESB voru til umræðu. Þ.e. Að þjóðaratkvæði séu ekki bindandi heldur leiðbeinandi.
Það felst raunar í orðinu þingsályktun að um álit er að ræða en ekki lög. Oftast verkfæri manna til að fría sig ábyrgð þegar þeim er í raun sama eða þá ómengað lýðskrum til að sefa gleyminn lýð.
Lýðskrumið er svo gagnsætt á alþingi íslendinga að maður er alltaf jafn forviða að þingmenn haldi þjóðina leggja trúnað á upphlaupin.
Sýn mér trú þína í verkum þínum. Annað er bara vindlát og sóun á súrefni.
Jón Steinar Ragnarsson, 14.3.2015 kl. 20:58
Sjáðu nú til Jón Þór, þessi þingsályktun 2009 var pólitísk stefnuyfirlýsing, og hafði ekkert lagalegt gildi.
Hefði síðasta ríkisstjórn ekki siglt í strand með aðlögunarviðræður, þá hefði stjórnarskrá Íslands verið brotin, þar sem forsenda "samninga" var aðlögun og upptaka laga og reglna ESB, með því valdaframsali sem því hefði fylgt.
Þingsályktunin var fyrirskipun til ríkisstjórnarinnar að "ná" samningum. Slík fyrirskipun er ekki tæk, hún er ólögleg, og hún er fullkomið rugl. Enginn ríkisstjórn getur gengið til samninga, bundin í báða skó með þeirri kröfu að samningum verði náð. Slíkt er yfirlýsing um að íslenska ríkisstjórnin geri engar kröfur, og samþykki allar kröfur mótaðilans. Enda voru "kröfur" utanríkismálanefndar almennt hjal um "æskilegar" niðurstöður og ekki bindandi.
Engin fyrimæli voru um það í ályktuninni hvað gera skyldi ef samningar ekki næðust (jafnvel þó svo að krafist hafi verið samninga skilyrðislaust) Engin fyriræli voru um það, hvernig bregðast skyldi við því að ESB neitaði að afhenda samningsmarkmið, eins og þeir gerðu í sjávarútvegsmálum.
Forræði málsins var sett í hendur ríkisstjórnar, án þess að gert hafi verið ráð fyrir aðkomu Alþingis. Einungis var gert ráð fyrir að ríkisstjórnin næði "samningum" og þeir lagðir fyrir þjóðina.
Ríkisstjórnin náði ekki "samningum". Ný ríkisstjórn hefur lýst því yfir að hún komi ekki til með að semja, og því engar líkur á að "samningar" náist, og því er ekkert til að leggja fram fyrir þjóðina.
Þingsályktunin er ónýt, hún var það frá upphafi, og braut gegn stjórnarskrá, þar sem framselja hefði þurft vald til ESB til að hægt væri að loka "köflum"
Það sem verst er, að ykkur ESB sinnum (jamm, þið eruð búin að afhjúpa ykkur) er ekkert heilagt í siðlausu stríði gegn eigin þjóð. Þið ætlið að troða Íslandi inn í bandalag í trássi við meirihluta þjóðarinnar.
Þið sniðgenguð Alþingsveisluna. Það væri mannsbragur á ykkur, ef þið mynduð einnig sniðganga sali Alþingis, fram að næstu kosningum.
Hilmar (IP-tala skráð) 14.3.2015 kl. 21:00
Er auðvitað rétt skilgrining hjá Jóni Þór.
Það að ríkisstjórnin skuli reyna að fara þessa leið, - það er eiginlega algjörlega óskiljanlegt. Og að ekki heyrist múkk í almennum þingmönnum stjórnarflokkanna varðandi efnið, - það hlýtur að verða að metast sem flestir þingmenn framsjalla séu óhæfir. Þeir skilja ekki þingræðisstjórnskipan.
Andstæðingar Evrópusambandsins hafa gert svoleiðis í brækurnar og um leið glyttir í einræðis- og ofstækistendensana hjá þessu liði, - að gjörsamlega sorglegt er að horfa á þetta. Gjörsamlega sorglegt.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 14.3.2015 kl. 21:45
Hilmar.
Því má bæta við mál þitt, sem mörgum virðist yfirsjást visvitandi eða ósjálfrátt, en það er sú staðreynd að þar sem um aðlögun er að ræða, sem er nauðsynleg til þess að loka köflum, þá skorti heimildir til að fullna þá kafla sem vörðuðu valdaframsal.
Upphaf stjórnarskrármálsins var einmitt sá grunnur sem ljúka þurfti til þess að yfirleytt væri lagalegur möguleiki á að fara í svokallaðar samningaviðræður. Þ.e. Að hafa heimildir til framsals, sem núverandi stjórnarskrá leyfir ekki.
http://www.visir.is/stjornarskra-breytt-fyrir-esb-adild/article/200938564492
Þegar stjórnlagaráð hafði lokið tillögum sínum voru þær bornar undir ESA til blessunar (sem segir jú raunar allt um tilganginn) en ESA hafnaði drögunum m.a. á þeirri forsendu að of margir fyrirvarar vöru á framsalsákvæðum í þessum nýju drögum. Þar með var málið í rauninni sjálfkrafa dautt.
Það er einnig rétt að minna á að í meintri þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá, þar sem bornar voru fram 6 loðnar spurningar um atriði sem vitað var að nokkur sátt var um, en sleppt að spyrja um framsalsákvæði, sem þó voru tíunduð skýrt í lögum um stjórnlagaþing sem markmið (raunar höfuðmarkmið) laganna.
blekkingaleikurinn tókst næstum því, en þar sem nýtsömum sakleysingjum stjórnlagaráðs var haldið í myrkri um markmiðin, þá skiluð þeir að sjálfögðu ekki því sem ætlast var til. Álit ESA tók af allan vafa um það.
Jón Steinar Ragnarsson, 14.3.2015 kl. 23:54
Hilmar.
Ef þingsályktanir eru bara ómark og vitleysa, er þá nokkur ástæða til að vera að burðast með þetta svokallaða þing?
Sæmundur Bjarnason, 15.3.2015 kl. 06:29
Sæmundur, ÞESSI ákveðna þingsályktunartillaga er fullkomið rugl. En þó ÞESSI ákveðna þingsályktunartillaga sé rugl, þá geta aðrar verið betri.
Og fyrst við erum að ræða þetta rugl, þá er rétt að benda á það aftur, að þingsályktunin var pólitísk stefnuyfirlýsing, og hefur ekkert lagalegt gildi, og bindur ekki núverandi ríkisstjórn.
Engin fyrirmæli eru um það gefin, hvorki í ályktuninni sjálfri, né nefndarálitinu sem hún styðst við, hvað gera skuli ef samningar náist ekki. Ástæðan er örugglega sú, að Össur og félagar hafa trúað því að það væri bara formsatriði að ganga frá aðlögun að ESB. Grunnurinn að því var nýja stjórnarskrá vinstrimanna, sem átti að tryggja, að Alþingi gæti framselt vald án aðkomu þjóðarinnar. Það mál var líka klúður frá A-Ö, og þess vegna strandaði aðlögunin.
Það er ekki við núverandi stjórnvöld að sakast, að hálfbjánar hafi sett saman hörmulega þingsályktun árið 2009. Hitt er það, að þó maður horfi framhjá hrákasmíðinni sjálfri, þá lá að baki einbeittur vilji til að sniðganga sjórnarskránna, og það er mun alvarlegri hlutur.
Skrýtið að sitjandi Alþingi skuli ekki leiða forkólfa vinstristjórnarinnar fyrir Landsdóm.
Hilmar (IP-tala skráð) 15.3.2015 kl. 08:32
Sæmundur, er það orðið aukaatriði máls að hlutverk Alþingis er að semja lög? (þá er ég ekki að tala um evrovision-lög)
Aumt var það hjá síðustu ríkisstjórn að smygla svo risastóru máli sem aðildar umsókn Íslands fram hjá bæði þjóðaratkvæðagreiðslu og svo höfnunarvaldi forseta með því að búa til viljayfirlýsingu í nafni Alþingis í stað þess leifa því að vinna vinnuna sína og stjórna með lögum.
Enn aumingjalegra er að ætlast til að þessi ólög séu bindandi fyrir næstu ríksstjórnir og klaga til Brussel.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 15.3.2015 kl. 13:11
Þú mættir svo athuga hvers vegna Össur stöðvaði viðræðurnar (án samráðs við utanríkismálanefnd sömuleiðis) og hvers vegna viðræðurnar sigldu í strand. Nú reynir á google innsæi þitt.
Jón Steinar Ragnarsson, 15.3.2015 kl. 13:28
Þingsályktun er eingöngu bindand gagnvart því þingi sem hana samþykkti og þeirri ríkisstjórn nema að hún byggi á gildandi lögum eða stjórnarskrá.
Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 15.3.2015 kl. 14:10
Klögunarbréf stjórnarandstöðunnar til Brussel er varla hægt að túlka á annan veg en að hún ætlist til að næstu kosningar verði um hvort Ísland eigi að aðlagast og ganga í ESB eða ekki!
Til hvers annars ætti að biðja ESB að halda lífi í strandaðri umsókn þangað til þeir taki við?
Vilji maður að Ísland gangi í ESB þá kýs maður einhvern stjórnarandstöðuflokkinn, eða með því að kjósa einhvern stjórnarandstöðuflokkanna þá er maður að lýsa yfir vilja til að ganga í ESB.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 15.3.2015 kl. 16:54
Það verður að kalla saman fráfarandi þing og fráfarandi ríkisstjórn svo að þeir geti klárað að fara eftir þingsályktun fráfarandi þings til fráfarandi ríkisstjórnar.
Eggert Sigurbergsson, 15.3.2015 kl. 18:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning