Það sem Björn Bjarnason skilur ekki um Pírata.
19.8.2014 | 10:42
Þessi sniðuga klippa birtist í Féttablaðinu. Hún vitnar í snjalla samlíkingu Björns Bjarnasonar sem gefur sér að Píratar vilji algert upplýsingafrelsi fyrir suma. Þetta er rangt. Engin hefur rétt á algeru upplýsingafrelsi, því þú hefur meðfæddan rétt til að hafa þitt einkalíf í friði. Allar upplýsingar um þig sem ekki varða vernd á borgararéttindum annarra hefur engin rétt á að fara með án þíns leyfis.
"Píratar telja gegnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku." Eins og segir í grunnstefnu Pírata. Jafnframt segir þar að: "Takmörkun á frelsi fólks til að safna og miðla upplýsingum er óásættanleg, nema til verndar borgararéttindum einstaklinga." Þar með talið friðhelgi einkalífs þíns.
Píratar telja því að almenningur hafi rétt á upplýsingum - sem oft komast ekki til skila nema með leka - til að geta tekið upplýstar ákvarðannir í lýðræðissamfélagi, en að sá réttur nái ekki inn á einkalíf fólks.
Ég hef spjallað við Björn Bjarnason um þennan mun og held hann skilji hann alveg, hann vill kannski frekar vera sniðugur en að sýna skilning sinn á málinu út á við. En þetta er ekki flókið og kemur skýrt fram í grunnstefnu Pírata.
Engin hefur því rétt á því að leka upplýsingum um þitt einkalíf - ekki opinberir aðilar og ekki almennir borgarar - og yfirvöldum er gert í stjórnarskránni að verja friðhelgi þess.
_____
Frekari útskýringar á hugtökum:
Upplýsingaréttur:
Þú hefur sem ríkisborgari rétt á að fá aðgang án undandráttar og án skilyrða að öllum gögnum sem þið opinbera safnar eða stendur straum af, svo framarlega sem það brjóti ekki gegn borgararéttindum annarra, s.s. friðhelgi einkalífsins og getu ríkisins til að verja borgararéttindi annarra.
Án upplýsingarréttar getur almenningur ekki tekið upplýstar ákvarðannir í lýðræðissamfélagi.
Friðhelgi einkalífs:
Þú hefur meðfæddan rétt til að hafa þitt einkalíf í friði. Allar upplýsingar um þig sem ekki varða vernd á borgararéttindum annarra hefur engin rétt á að fara með án þíns leyfis.
Án friðhelgi einkalífssins er hætt við því að fólk ritskoði sjálft sig. Það þorir ekki að gera eða segja það sem til þarf til að verja sín réttindi. Þetta kemur hvað skýrast fram í mikilvægi leynilegra kosninga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.