Heimilin í skjól þar til lögmæti lánanna sé ljóst.

Fyrsta lagafrumvarp sem Píratar frumfluttu í dag miðar að því að koma heimilum landsins í tímabundið skjól frá nauðungarsölu að kröfu Íbúðalánasjóðs. 
 
Jón Þór Ólafsson, fluttningsmaður frumvarpsins og þingmaður Pírata.
 

Kostir frumvarpsins:
1. Frumvarpið tekur aðeins til Íbúðalánasjóðs. Innanríkisráðherra hefur sett sig alfarið upp á móti því að stöðvar séu nauðungarsölur kröfuhafa og ber þar fyrir sig eignarrétta þeirra sem tryggður er í stjórnarskrá. En Íbúðalánasjóður er í ríkiseigu og Alþingi hefur stefnumótunarvald yfir sjóðnum, svo þau mótrök ráðherra ná ekki til hans.
2. Samhljóðandi frumvarp var flutt og samþykkt á Alþingi í tvígang á síðasta kjörtímabili. Frumvarpinu verður því ekki vísað frá vegna formgalla og gerir afgreiðslu þess í nefnd auðveldari.
3. Flutningsmenn frumvarpsins eru úr Framsóknarflokki, Bjartri Framtíð, Samfylkingu og Pírötum.
 
Gallar frumvarpsins: 
1. Frumvarpið tekur aðeins til Íbúðalánasjóðs. Það mun því sem lög aðeins veita helmingi heimila landsins sem eru með lán sín hjá sjóðinum skjól. Þetta er aðeins fyrsta skrefið og eru flutningsmenn frumvarpsins að þrýsta á að öllum heimilum landsins verði komið í skjól sem fyrst. 

Hún Hanna Birna sem Innanríkisráðherra ætti að beita öllum tiltækum ráðum síns embættis til að vernda réttarstöðu lántakenda lögum samkvæmt. Við munum nota öll tiltæk ráð til að þrýsta á að svo verði. Við erum rétt að byrja.
 

Stefna Pírata í skuldamálum heimilanna er skýr:

1. Leita allra leiða til að stöðva nauðungarsölur á heimilum landsmanna þar til dómstólar taka af allan vafa um lögmæti lánanna sem á þeim hvíla. (Fyrsta skrefið stigið með þessu frumvarpi)

2. Að landsmenn fái úr réttarstöðu sinni skorið fyrir dómsstólum óháð efnahag. (Næsta mál á dagskrá)

3. Að sá skaði sem landsmenn hafa orðið fyrir vegna nauðungarsalna og gjaldþrota vegna óréttmætrar málsmeðferðar eða ólöglegra lána sé leiðréttur.


Elsa Lára Arnardóttir, meðfluttningsmaður og þingmaður Framsóknar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir

Þið standið ykkur vel en ég minni þig á félagi og baráttubróðir að við í Hagsmunasamtökum heimilanna erum búin að leggja fram stefnu á hendur verðtryggingunni og ætlumst við til að íslenskir dómarar dæmi eftir íslenskum lögum í okkar máli.

Semsagt, hinn 7. nóvember 2013 var þingfest fyrir héraðsdómi Reykjavíkur stefna gegn Íbúðalánasjóði vegna verðtryggðs neytendaláns sem Hagsmunasamtök heimilanna standa að baki. Samtökin hófu þessa vegferð innan dómskerfisins fyrir rúmi ári síðan, en ríkislögmaður (fyrir hönd Íbúðalánasjóðs) fór fram á frávísun málsins vegna meints formgalla og féllust dómsstólar á þá kröfu í fyrstu atrennu.

Málshöfðunin byggir meðal annars á þeirri forsendu að lánasamningur hins verðtryggða fasteignaláns standist ekki kröfur þær sem skýrt er kveðið á um í lögum um neytendalán (nr. 121/1994) varðandi það að tæmandi upplýsingar um heildarlántökukostnað skuli liggja fyrir við undirritun lánasamninga, miðað við raunverulegar forsendur. Lánveitanda sé því ekki heimilt að innheimta þann kostnað.

Forsætisráðherra flutti sama dag munnlega skýrslu á Alþingi um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142. Samkvæmt því sem þar kom fram virðast fyrirhugaðar leiðréttingar af hálfu stjórnvalda eiga að fela í sér samninga við kröfuhafa og að nýta það svigrúm sem þar skapast til lækkunar verðtryggðra lána og hefur hlutfallið 20% gjarnan verið nefnt í því samhengi. Hagsmunasamtökin vilja benda stjórnvöldum á að margvísleg rök hníga að því að verðtryggð neytendalán hafi verið ólöglega útfærð frá 2001. Til samanburðar má benda á að bara frá 1.1.2008 hefur verðtryggingin hækkað verðtryggð lán u.þ.b. 50 % þannig að allir samningar um eitthvað minna en það eru hjóm eitt í því samhengi.

Teljum við að allir aðilar þurfi nú að flýta ofangreindu dómsmáli HH í gegnum íslensk dómstig þannig að úr þessari óvissu um lögmæti verðtryggingarinnar verði skorið sem fyrst og verðum við að treysta íslenskum dómurum til að dæma eftir íslenskum lögum. Íslensk heimili þola ekki enn eina smáskammtalækninguna í formi samninga við þá sem orsökuðu forsendubrestinn margumtalaða og íslenskar fjölskyldur þola ekki lengri bið eftir því að fá úr því skorið hvort verðtrygging neytendalána sé ólöglega útfærð.

Málsókn af þessu tagi er kostnaðarsöm og hefur sérstakur málsóknarsjóður verið stofnaður til að standa straum af kostnaði. Félagsmenn HH sem og aðrir sem láta sig málið varða eru hvattir til að leggja málefninu lið með fjárframlögum inn á reikning nr. 1110-05-250427, kennitala: 520209-2120. Öll framlög skipta máli því margt smátt gerir eitt stórt!

f.h. Stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna

Vilhjálmur Bjarnason ekki fjárfestir, formaður HH.

Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 14.11.2013 kl. 15:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband