Hanna Birna gæti haft heimildir til að verja eignarrétt lántakenda.

Dómur Evrópudómstólsins 14. mars á þessu ári segir skýrt að ekki megi selja heimili fólks nauðungarsölu án dómsúrskurðar, jafnvel þó lánasamningar segi að svo megi.

Dómurinn byggir á neytendaverndar tilskipun frá Evrópusambandinu sem hefur verið leidd í íslensk lög. Stóra spurningin fyrir lántakendur er því hvort þessi neytendavernd eigi við á Íslandi. 

Um þennan dóm Evrópudómstólsins segir Innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir í þingsal í dag að hann sé: "ekki endilega talin eiga við hér á landi." (sjá myndskeið að neðan)

En Hanna Birna hefur heimild í Lögum um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda til að hefja dómsmál til að fá úr því skorið hvort Hæstiréttur telji lögin "eiga við hér á landi."

Hvað tefur ráðherra í því að fá úr því skorið hvort þessi leið til að verja eignarrétt lántakenda sé fær?

 
Umræðuna í heild má sjá hér á vef Alþingis

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Annað hvort gildir þessi evróputilskipun hér eða ekki.

Ef hún gildir ekki, þá ættu að vera hæg heimatökin hjá Hönnu Birnu, hjá Sigmundi Davíð, að LÁTA HANA GILDA.

Taka af allan vafa og setja samstundis (strax er víst teygjanlegt orð og því ekki notað hér) lög sem banna uppboð á húsum skuldara án undangengins dóms.

Svona í ljósi nýliðinnar hagsögu , allra aðstæðna og svo að sjálfsögðu ummæla þessa fólks fyrir kosningar, þá ætti þeim ekki að vera neitt að vanbúnaði að réttlæta þessa lagasetningu og taka af vafann.

Aðgerðarleysið málum skuldara er hinns vegar dómurinn sem gildir. Verkin (verkleysið) sýna merkinn.

Niðurstaðan, sama skítapakkið og var á fleti fyrir kosningar.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.10.2013 kl. 12:25

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það þarf ekki að setja nein ný lög sem banna uppboð á húsum skuldara án undangengins dóms, heldur voru þau lög voru samþykkt á Alþingi árið 1995 til þess að innleiða tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum til samræmis við EES-samninginn sem tók gildi árið 1993.

http://www.althingi.is/altext/stjt/1995.014.html

http://www.althingi.is/lagas/nuna/1936007.html#G36

Þessi lög fela það í sér að samningsskilmálar um beinar aðfararir eða nauðungarsölu á heimilum eru óréttmætir og óskuldbindandi fyrir neytendur.

Fyrir því eru ýmis rök, einkum og sér í lagi þau að í 70. gr. stjórnarskrárinnar eru bundin þau mannréttindi að öllum beri réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli (sýslumenn fara ekki með dómsvald) auk þess sem sem í 71. gr. eru bundin þau mannréttindi að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu og ekki megi gera verulega röskun á þeirri friðhelgi nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild.

http://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html#G70

Þá segir í 16. gr. barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna sem var lögfestur hér á landi í mars á þessu ári að börn skuli njóta verndar fyrir gerræðislegum eða ólögmætum afskiptum af einkalífi þess, fjölskyldu, heimili eða bréfum, o.fl en samkvæmt 2. gr. sáttmálans á þetta við án tillits til félagslegrar stöðu eða annara aðstæðna foreldra þeirra, þar á meðal eignastöðu.

http://www.althingi.is/lagas/142/2013019.html

Þegar fjölskylda stendur frammi fyrir því að eiga á hættu að missa hreinlega heimilið, eiga þessi ákvæði sérstaklega sterkt við. Með því að leiða fólk í þeirri stöðu gegnum fullnustumeðferð hjá sýslumanni, er það í raun svipt möguleikanum á að fá dómsúrlausn um réttindi sín og það er ekki réttlát málsmeðferð.

Innanríkisráðherra getur lagað þetta með því einu að framfylgja lögunum.

Og að virða stjórnarskránna, EES-samninginn, og barnasáttmála SÞ.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.10.2013 kl. 19:56

3 identicon

Þetta er ítarlegt hjá þér Guðmundur. Líklegast er þarna sambærileg lögleysa á ferð og var í gengismálalánunum.  Opinberir aðilar vita eða meiga vita að um ólöglegt athæfi er að ræða en gera ekkert með það.

Ætli það sé annars hægt að kæra sýslumann til sýslumanns? ;-)

 Ég á engra hagsmuna að gæta varðandi íbúðarlán, mér blöskrar þar bara þessi meðhöndlunin á samborgurum mínum. Þessi bölvaði skepnuskapur sem er látinn viðgangast og talað næstum um eins og náttúrulögmál.  

Ég vil ekki trúa því að Hanna Birna sé eitthvert illmenni eða aðrir í ríkisstjórninni. Þar með hlýtur beinn og óbeinn stuðningur hennar við fjármálaöflin á móti skuldsettum íbúðareigendum að stafa af einhverju öðru.

Mín kenning er sú að þarna sé um að ræða vanhæfni og aumingjagang,kanski í bland við dulin hagsmunatengsl, hver veit? Það á um leið  líka við um Sigmund og Bjarna. Má vera að aðrir ráðherrar og stjórnarþingmenn hafi ekki svo beina aðkomu að málinu sem þessi þrjú hafa og/eða geta haft stöðu sinnar vegna.

Fá mál eru jafn borðliggjandi um loforðainnistæðuleysi stjórnarflokkanna og þessi útburður fólks af heimilum sínum.  Með mjög góðum vilja gæti maður tekið þá skýringu gilda varðandi seinaganginn við skuldaniðurfærsluna að það sé bara svo voðalega erfitt að fást við vargasjóðina.  

 En óverjandi er að hleypa sýslumönnunum svona á fólk þegar eitt einasta pennastrik er nóg til að stoppa þá.  Tala nú ekki um þegar aðgerðirnar eru í þokkabót ólöglegar eins og Guðmundur bendir hér á.   Þar duga engar afsakanir.

Veldur því að ég trúi ekki lengur orði af því sem frá þessu fólki kemur.

Fyrir mér er þessi ríkisstjórn því dauð og ómerk, ég efast um að menn gangi til verks af heilindum heldur láti einhverja eiginhagsmuni ganga fyrir almannahagsmunum.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 18.10.2013 kl. 00:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband