SJÖ LEXÍU SKÓLAKENNARINN

 

Þessi ræða var flutt þegar höfundur hennar John Taylor Gatto

tók við verðlaunum sem “kennari ársins í New York fylki” árið 1991.

 

I

gatto

Vinsamlegast kallið mig hr. Gatto. Fyrir þrjátíu árum, þegar ég hafði ekkert betra að gera, reyndi ég fyrir mér í kennslu. Leyfið sem ég hef gerir mig að löggildum kennara í ensku og enskum bókmenntum, en það er alls ekki það sem ég geri. Ég kenni ekki ensku, ég kenni skóla – og ég fæ verðlaun fyrir það.

Að kenna hefur mismunandi merkingu á hinum ýmsu stöðum, en sjö lexíur eru kenndar frá Harlem til Hollywood hæða. Þær mynda ríkisnámsskrá sem þið greiðið fyrir á fleiri vegu en þig gerið ykkur grein fyrir, svo það er eins gott að þið heyrið hver hún er. Ykkur er að sjálfsögðu frjálst að líta á þessar lexíur eins og ykkur sýnist, en trúið mér þegar ég segi að þessari kynningu er ekki ætlað að vera kaldhæðin. Þetta er það sem ég kenni, þetta er það sem þið borgið mér fyrir að kenna. Dragið ykkar eigin lærdóm af því.

 

1. RINGULREIÐ

Kona að nafni Kathy skrifaði mér eftirfarandi, frá Dubois Indiana, um daginn:

Hvaða miklu hugmyndir eru mikilvægar litlum krökkum? Mikilvægasta hugmyndin sem ég tel þau þurfa er að það sem þau eru að læra sé ekki einangrað – heldur að eitthvert samhengi sé milli alls þess sem þau læra, og að það hellist ekki bara yfir þau þegar þau eru hálf hjálparvana að reyna að drekka það í sig. Það er verkefnið, að skilja, að setja í samhengi.

Kathy hafði rangt fyrir sér. Fyrsta lexían sem ég kenni er ringulreið. Allt sem ég kenni er slitið úr samhengi. Ég kenni óskyldleika alls. Ég kenni sundurleysi. Ég kenni of mikið um: gang himintunglanna, lögmál stórra talna, þrælahald, lýsingarorð, byggingarlistar teikningu, dans, leikfimi, kórsöng, samkomur, brunaþjálfun.

Jafnvel í bestu skólunum leiðir ýtarleg athugun á námsskrá í ljós skort á samhengi og fjölda innri mótsagna. Sem betur fer eiga börnin ekki orð til að útskýra skelfinguna og reiðina sem þau finna fyrir vegna stöðugrar brenglunnar á náttúrulegri röð og reglu sem er prangað inn á þau sem gæðamenntun. Rökleiðsla skóla-hugans er sú að betra er að yfirgefa skólan með verkfæri yfirborðslegs tæknimáls með rætur í hagfræði, félagsfræði, náttúruvísindum og svo framvegis, heldur en með einlægan áhuga. En gæði menntunnar felur í sér að læra eitthvað til fulls. Ringulreið er þvingað inn á krakka af of mörgu ókunnugu fullorðnu fólki, sem hvert og eitt vinnur út af fyrir sig með minnst samband hvert við annað, og það gefur sig út fyrir sérkunnáttu sem það, oftast, hefur ekki yfir að ráða.

Tilgangur, en ekki samhengislausar staðreyndir, er það sem geðheilar manneskjur leita að, og menntun er samstæða táknmáls til að breyta hráum staðreyndum og gæða þær merkingu. Bak við bútasaumsteppi skólaferlisins og þráhyggju skólanna á staðreynda og kenninga stagli, er aldagömul leit mannsins að tilgangi vel falin. […]

Hugsið um hin miklu náttúrulegu ferli eins og að læra að ganga og tala; framrás ljóss frá sólarupprás til sólarlags; hina fornu starfshætti bóndans, járnsmiðsins eða skósmiðsins; eða undirbúning jólaveislu. Allir hlutar eru í fullkomnu samræmi hver við annan, hver aðgerð réttlætir sjálfan sig og varpar ljósi á það sem á undan fór og á eftir kemur. Skólaferlin eru ekki svona, ekki innan einnar einustu kennslustundar og ekki innan skóladagsins í heild. Skólaferlin eru brjáluð. Það er engin sérstök ástæða fyrir neinu þeirra, engin sem stenst vandlega skoðun. Fáir kennar myndu voga sér að kenna þau tæki sem nota mætti til að gagnrýna kennisetningar skólanna eða kennaranna, því allt verður að meðtaka. Námsefni skólanna eru lærð, ef að hægt er að læra þau, eins og krakkar læra kristinfræði eða leggja á minnið trúarjátninguna.

Ég kenni óskyldleika alls, algjört samhengisleysi; það sem ég geri er líkara því að setja saman sjónvarpsdagskrá en að búa til kerfi raða og reglna. Í heimi þar sem heimili er einungis svipur hjá sjón, því báðir foreldrarnir vinna úti, eða vegna of margra bíómynda, eða of tíðra starfskiptinga, eða of mikils metnaðar, eða vegna einhvers annars sem hefur gert alla of ringlaða til að rækta fjölskyldutengsl, kenni ég nemendum hvernig þeir skulu sætta sig við ringulreið sem örlög sín. Það er fyrsta lexían sem ég kenni.

 

2. BEKKJAFLOKKUN

Önnur lexían sem ég kenni er bekkjaflokkun. Ég kenni að nemendur verði að vera í þeim bekk sem þeir eiga heima í. Ég veit ekki hver ákveður að krakkarnir mínir eiga heima þar, en það kemur mér ekki við. Börnum er gefið númer svo ef eitthvert þeirra sleppur er hægt að skila því í réttan bekk. Í gegnum árin hefur aðferðum við að gefa börnum númer í skólum fjölgað stórlega, og nú er svo komið að það er erfitt að sjá skýrt manneskjuna undir þunga númeranna sem þau bera. Að númera börn er stórt og mjög arðbært verkefni, en hverju það á að skila er erfiðara að festa hönd á. Ég veit ekki einu sinni hvers vegna foreldrar leyfa, baráttulaust, þessa meðferð á börnunum sínum.

Hvað mig varðar, þá kemur mér það ekki við. Mitt hlutverk er að fá þau til að láta sér vel líka að vera læst inni með öðrum börnum sem, eins og þau, bera númer, eða að minnsta kosti láta það yfir sig ganga. Ef ég vinn starfið mitt vel geta krakkarnir ekki einu sinni ímyndað sér sjálf sig eitthver staðar annars staðar, því ég hef kennt þeim að öfunda og óttast betri bekkina og að fyrirlíta þá heimsku. Undir þessari árangursríku aðferð agar bekkurinn sig að mestu leyti sjálfur. Þetta er hin raunverulega lexía þykjustu samkeppni, eins og þeirrar sem er stunduð í skólum. Þú lærir að þekkja þinn bás […]

Ég gef hvað eftir annað í skyn að sá dagur muni koma þegar vinnuveitandi mun ráða þau á grundvelli einkunna þeirra, jafnvel þótt mín eigin reynsla sé sú að vinnuveitendur skeyta réttilega lítið um slíkt. Ég lýg aldrei beinlínis, en ég hef komist á þá skoðun að sannleikur og skólakennsla eru, þegar öllu er á botninn hvolft, ósamrýmanleg, rétt eins og Sókrates sagði fyrir þúsund árum.

Lexía bekkja flokkunar er sú að allir eiga heima á sínum stað í pýramídanum og engin leið er út úr þínum bekk nema með tölutöfrum og bregðist það, verður þú að dúsa þar sem þú ert.

 

3. ÁHUGALEYSI, SKEYTINGARLEYSI

Þriðja lexían sem ég kenni er áhugaleysi, skeytingarleysi. Ég kenni börnum að hafa ekki of mikinn áhuga á neinu, jafnvel þó að þau vilji láta líta út fyrir að svo sé. Hvernig ég fer að þessu er úthugsað. Ég geri þetta með því að krefjast þess að þau sökkvi sér í lexíurnar mínar, iðandi í sætunum sínum af eftirvæntingu, keppandi ötullega við hvort annað um velþóknun mína. Manni hlýnar um hjartaræturnar við að sjá þetta; þetta hrífur alla, jafnvel mig. Þegar ég er upp á mitt besta skipulegg ég lexíuna mjög vandlega til að kalla fram þessa sýningu á áhuga. En þegar bjallan hringir krefst ég þess að þau hætti undir eins því sem þau eru að gera og komi sér fljótt á næsta vinnusvæði. Þau verða að slökkva og kveikja á sér eins og ljósrofi. Ekkert mikilvægt er nokkurtíman klárað í tímunum mínum eða í nokkrum tímum sem að ég veit um. Nemendur hafa aldrei heilsteypta reynslu nema þá á þessu smáskammtakerfi.

Að sjálfsögðu er lexía úthringinga að ekkert verk sé þess virði að klára, svo hvers vegna að hafa mikinn áhuga á nokkru? Ár eftir ár af úthringingum mun skilyrða alla nema þá sterkustu að heimurinn er staður sem getur ekki lengur boðið upp á áhugavert verk að vinna. Úthringingar eru hin leyndu rök skólatímans; lögmál hans er ósveigjanlegt. Út-og innhringingar eyðileggja fortíð og framtíð, túlkandi hvert hlé sem það sama og öll önnur, eins og fjarhyggli landakorts gerir hvert lifandi fjall og á eins. Út-og innhringingar bólusetja hvert viðfangsefni fyrir áhuga.

 

4. TILFINNINGALEGT ÓSJÁLFSTÆÐI

Fjórða lexían sem ég kenni er tilfinningalegt ósjálfstæði. Með stjörnum og fýluköllum, brosum og grettum, verðlaunum, heiðri og skömm, kenni ég börnum að láta vilja sinn af hendi til fyrirfram ákveðins valdastiga. Hvaða yfirvald sem er má úthluta réttindum eða ekki án áfrýjunar, af því að réttindi eru ekki sjálfgefin í skólum – ekki einu sinni málfrelsi (eins og hæstiréttur hefur úrskurðað – nema skólayfirvöld segja að þau séu það). Sem skólakennari skipti ég mér af mörgum persónulegum ákvörðunum, og úthluta leyfi fyrir þeim sem ég tel réttlætanlegar en beyti aga gegn hegðun sem ógnar stjórn minni. Einstaklingseðlið er stöðugt að brjótast fram meðal barna og unglinga svo dómar mínir eru margir og kveðnir upp án tafa. Hér eru nokkur algeng dæmi hvernig einstaklingseðlið skýtur upp kollinum: börn læðast í burtu til að eiga tíma með sjálfum sér undir því yfirskini að þau ætla á klósettið, eða til að stela augnabliki til að vera ein undir því yfirskini að þau þurfi að drekka. Ég veit að svo er ekki, en ég leyfi þeim að “blekkja” mig því þetta skilyrðir þau að vera háð mér um greiða. Stundum birtist frjáls vilji fyrir framan nefið á mér í hópi barna sem eru reið, þunglynd eða glöð yfir hlutum utan míns valdsviðs; slík réttindi geta skólakennarar ekki viðurkennt, einungis forréttindi sem hægt er að svipta börnin og halda þeim þannig gíslum góðrar hegðunar.

 

5. VITSMUNALEGT ÓSJÁLFSTÆÐI

Fimmta lexían sem ég kenni er vitsmunalegt ósjálfstæði. Góðir krakkar bíða eftir því að láta segja sér hvað þeir eiga að gera. Þetta er mikilvægasta lexían: við verðum að bíða eftir öðru fólki, betur þjálfað en við sjálf, til að gefa lífi okkar tilgang. Sérfræðingurinn tekur allar mikilvægu ákvarðanirnar; aðeins ég, kennarinn, get ákveðið hvað krakkarnir mínir þurfa að læra, eða öllu heldur aðeins þeir sem að borga mér geta tekið þær ákvarðannir, sem ég framfylgi síðan. Ef mér er sagt að þróun tegundanna sé staðreynd en ekki kenninng, þá kem ég því til skila eins og mér er skipað, og refsa þeim(deviants) sem streitast á móti því sem mér var sagt að segja þeim að hugsa. Þetta vald, að stjórna hvað börn hugsa, gerir mér það auðvelt að skilja árangursríku nemendurna frá þeim misheppnuðu. Árangursríku börnin hugsa það sem ég segi þeim fyrir með lágmarks mótþróa og sýna viðeigandi áhuga. Af þeim milljónum hluta sem er virði að læra, ákveð ég hvað við höfum tíma fyrir. Í rauninni er þetta ákveðið af andlitslausu vinnuveitendunum mínum. Valið er þeirra – hví skyldi ég gagnrýna það? Forvitni skipar ekki mikilvægan sess í mínu starfi, aðeins hlýðni.

Slæmu krakkarnir berjast, að sjálfsögðu, á móti þessu, jafnvel þótt þau skorti hugtök til að skilja hverju þau eru að berjast gegn. Þau glíma við að ákveða fyrir sjálfan sig hvað þau læra og læra ekki. Hvernig getum við leyft slíkt og komist af sem kennarar? Sem betur fer eru til margreyndar aðferðir til að brjóta vilja þeirra sem streitast á móti; það er auðvitað erfiðara ef krakkarnir eiga virðulega foreldra sem standa með þeim, en þetta gerist sjaldnar og sjaldnar þrátt fyrir slæmt orðspor skóla. Engir miðstéttarforeldrar sem ég hef nokkur tíman hitt trúa því í raun að skóli barns þeirra sé einn af þeim slæmu. Ekki einn einasti foreldri á kennslu ferli mínum. Það er ótrúlegt, og er sennilega besti vitnisburðurinn um hvað verður um fjölskyldur þegar móðir og faðir hafa verið vel skóluð sjálf, hafa lært lexíurnar sjö.

Gott fólk bíður eftir sérfræðingum til að segja sér hvað skal gera. Það eru engar ýkjur að segja að hagkerfi okkar byggir á því að þessi lexía sé lærð. Gætum að hvað myndi ganga úr lagi ef börn væru ekki þjálfuð í að vera ósjálfstæð og háð: Félagsþjónustur gætu varla þrifist – þær myndu hverfa, held ég, aftur til útnárans sem þær komu frá. Félagsfræðingar og félagsráðgjafar myndu horfa í hryllingi á hvernig framboðið á geðsjúkum einstaklingum hyrfi. Framleitt skemmtiefni alls konar, þar með talið sjónvarp, myndi visna, samhliða því að fólk lærði aftur að búa til sína eigin skemmtan. Veitingastöðum og fjöldi ýmis konar annarra matframleiðslustaða myndi fækka stórkostlega ef fólk snéri sér aftur að því að matreiða ofan í sig sjálft, í stað þess að treysta á ókunnuga til að planta, tína, skera og elda fyrir sig. Mikið af nútíma lögfræði, læknisfræði og verkfræði færi líka sömu leið, ásamt fata iðnaðinum og skólakennslu, nema að tryggt framboð af hjálparlausu fólki héldi áfram að streyna út úr skólunum okkar á hverju ári.

Ekki vera of fljótur á þér að kjósa róttækar breytingar á skólakerfinu ef þú vilt halda áfram að fá launaseðilinn þinn. Við höfum búið okkur lífsmáta sem er háður því að fólk geri það sem því er sagt því það kann ekki að segja sér það sjálft. Þetta er mikilvægasta lexían sem ég kenni.

 

6. SKAMMTAÐ SJÁLFSÁLIT

Sjötta lexían sem ég kenni er skammtað sjálfsálit. Ef þú hefur eitthvern tíman reynt að brjóta til undirgefni krakka sem eiga foreldra sem hafa sannfært þau um að þau verða elskuð sama hvað á dynur, þá veistu að það er ómögulegt að fá sjálfstæðan anda til að hlýða skilyrðislaust. Heimurinn okkar eins og hann er myndi ekki standast bylgju sjálfstæðs fólks mjög lengi, svo ég kenni að sjálfsvirðing krakka skyldi vera háð áliti sérfræðinga. Börnin mín eru stöðugt vegin og metin.

Umsögn kennara, tilkomumikil eins og hún er, er send inn á heimili nemenda til að kalla fram velþóknun eða segja foreldrum nákvæmlega, upp á prósentu stig, hve óánægðir þeir skyldu vera með barnið sitt.

Vistfræði “góðrar” skólunar er háð viðvarandi óánægju, rétt eins og viðskiptalífið er háð sama áburði(frjómagni). Þó að sumir kynnu að furða sig á því hve lítill tími fer í að gera þessar stærðfræðilegu umsagnir, þá hefur uppsafnaður þungi þessara að því er virðist hlutlausu skjala búið til æviágrip sem neyðir börn að komast að ákveðinni niðurstöðu um sjálfan sig og framtíð sína, sem byggir á tilviljunarkenndu áliti ókunnugra. Sjálfsmat, grundvöllur allra stórra heimspekikerfa sem hafa komið fram á þessari jörð, eru aldrei talin hafa vægi. Lexía einkunnablaða, einkunna og prófa er að börn skuli ekki treysta sjálfum sér eða foreldrum sínum, heldur í staðin skulu þau setja traust sitt á mat löggiltra sérfræðinga. Fólk verður að heyra það frá öðrum hvers virði það er.

 

7. MAÐUR GETUR SIG HVERGI FALIÐ

Sjöunda lexían sem að ég kenni er að maður getur sig hvergi falið. Ég kenni nemendum að stöðugt sé fylgst með þeim, að hver og einn þeirra er undir stöðugu eftirliti míns og starfsfélaga minna. Það eru engin afdrep fyrir börn; engin tími með sjálfum sér. Tími milli kennslustunda er nákvæmlega þrjúhundruð sekúndur, til að koma, að mestu, í veg fyrir skyndikynni. Nemendur eru hvattir til að klaga hvorn annan og jafnvel að klaga foreldra sína. Að sjálfsögðu hvet ég foreldra einnig til að segja mér frá duttlungum barna þeirra. Fjölskylda sem er þjálfuð í að klaga sjálfa sig er ekki líkleg til að fela hættuleg leyndarmál. Ég set fyrir ákveðið form af framlengdri skólun, nefnd “heimavinna”, svo áhrif eftirlitsins, ef ekki eftirlitið sjálft, fari á einkaheimilin, þar sem nemendurnir gætu annars notað frítíma sinn til að læra eitthvað óheimilt af föður eða móður, með rannsókn eða með því að gerast lærlingur hjá einhverri viturri manneskju í hverfinu. Ótryggð við skólahugmyndina er ári sem ávallt er reiðubúinn að finna iðjulausum höndum verk að vinna. Tilgangur stöðugs eftirlits og að meina börnum tíma með sjálfum sér er sá að kenna að engum sé hægt að treysta, að einkalíf sé ekki réttlætanlegt. Hið forna valdboð að fylgjast skyldi með fólki á sér talsmenn meðal margra áhrifamikilla hugsuða. Meginforskrift þess er er meðal annars sett fram í ritunum  Ríkið, Borg Guðs, Stofnanir Kristinna Trúarbragða, Nýja Atlantis, Leviathan. Allir þessir barnslausu menn sem skrifuðu þessar bækur komust að sömu niðurstöðu: fylgjast verður grannt með börnum ef þú vilt hafa samfélag undir þröngskorðaðri miðstýringu. Börn munu fylgja einleikara ef þú kemur þeim ekki í samhæfða hljómsveit.

 

II

Hin mikli sigur ríkiseinokunar skólaskyldu felst í að jafnvel meðal bestu samkennara minna og jafnvel meðal bestu foreldra nemenda minna, getur aðeins örfáum þeirra gert sér í hugarlund að fara öðruvísi að. “Krakkar þurfa jú að kunna að lesa og skrifa, er það ekki?” “Þau þurfa jú að kunna að leggja saman og draga frá, er það ekki?” “Þau þurfa að læra að fylgja skipunum til að geta búist við að halda starfi sínu.”

Fyrir fáum mannsöldrum síðan var tíðin önnur í Bandaríkjunum. Frumleiki og fjölbreytni voru algengur gjaldmiðill; frelsi okkar frá of mikilli skipulagningu gerði okkur að undri heimsins; tiltölulega auðvelt var að yfirstíga stéttamörk; borgararnir voru frábærlega sjálsöruggir, hugvitssamir, og hæfir til að annast sjálfir það sem þurfti að fá gert og færir um að hugsa sjálfstætt. Við Ameríkubúar vorum eitthvað sérstakt, einir á bát, án ríkisvalds með nefið í hvers manns koppi og mælandi allar hliðar mannlífsins, án stofnanna og félagsmálastofa til að segja okkur hvernig við eigum að hugsa og líða. Við vorum eitthvað sérstakt, sem einstaklingar, sem Ameríkubúar. En síðan rétt eftir borgarastyrjöldina, höfum við í megin atriðum búið í miðstýrðu samfélagi í Bandaríkjunum og slíkt samfélag þarf skólaskyldu – ríkiseinokun á skólum – til að viðhalda sér. Fyrir þessa þróun var skólun hvergi mjög mikilvæg. Hún var til, en aðeins í mjög litlu mæli, og aðeins að svo miklu leyti sem einstaklingurinn sjálfur vildi. Fólki gekk hvort sem er vel að læra lestur, skrift og stærðfræði; kannanir gefa til kynna að í kringum Bandarísku uppreisnina hafi læsi frjálsra manna á austurströndinni verið næstum algert. Bók Thomas Paine Common Sense [Almenn skynsemi], seldist í 600.000 eintökum meðal 3.000.000 íbúa þar sem 20% þeirra voru þrælar og 50% þjónar í vistarbandi.

Voru nýlendubúarnir snillingar? Nei, sannleikurinn er sá að það að kenna lestur, skrift og talnareikning tekur aðeins hundrað klukkustundir svo framarlega sem áheyrandinn hefur áhuga og vill læra. Galdurinn er að bíða þar til einhver biður um hjálp og vinna þá hratt með honum meðan áhuginn endist. Milljónir manna kenna sér þessa hluti sjálfir – það er ekki svo erfitt. Finndu fimmtubekkjar stærðfræði eða mælskulistar kennslubók frá 1850 og þú munt sjá að í dag er það efni kennt í háskóla.

Hugmyndin um “grundvallar kunnáttu” er aðeins tálsýn sem skólinn notar til að eyða tólf árum af lífi barnanna okkar, við að kenna þeim þær lexíur sem ég hef þegar útskýrt fyrir ykkur. Samfélagið, sem hefur að miklu leyti orðið miðstýrt síðan rétt fyrir borgarastyrjöldina, endurspeglast í lífinu sem við lifum, fötunum sem við klæðumst og matinum sem við borðum, sem allt eru afurðir þessarar stýringar. Aðrar afurðir hennar tel ég vera faraldra eitulyfjaneyslu, sjálfsmorða og skilnaða, ofbeldis og grimmdar ásamt umbreytingu stétta í erfðastéttir í Bandaríkjunum, afurðir ómannúðarvæðingar (dehumanization) lífa okkar, og minna gildis einstaklingsins , fjölskyldunnar og samfélagsins – rýrnun sem ég tel afleiðingu miðstýringar. Óhjákvæmilega vilja stórar skylduþátttöku-stofnanir meira og meira, þar til ekkert er eftir til að gefa. Skólinn stíar börnin okkar frá allri þátttöku í virku samfélagslífi – í rauninni drepur hann samfélagsandann með því að fela löggiltum sérfræðingum þjálfun barnanna okkar – og með því tryggir hann að börnin okkar geta ekki orðið fullþroska manneskjur. Aristóteles kenndi að án fullkomlega virks hlutverks í samfélagslífinu getur maður ekki vonast til þess að verða heilbrigð manneskja. Hann hafði svo sannarlega á réttu að standa. Líttu í kringum þig næst þegar þú ert nálægt skóla eða verndarsvæði gamla fólksins ef þú þarft sönnun.

Skólakerfið var hannað sem undirstaða samfélagskerfis sem dæmir flest fólk í stöðu undirmannsins í pýramíta sem þrengist þegar ofar dregur; þegar nær dregur æðstu stjórnstöð. Skólakerfið er brella(artifice) sem lætur slíka pýramíta þjóðfélagsreglu virðast óhjákvæmilega jafnvel þó að slík forsenda sé grundvallarsvik við bandarísku byltinguna. Frá nýlendutímanum í gegnum sögu Lýðveldisins höfðu við svo til enga skóla – lestu sjálfsævisögu Benjamins Franklins sem dæmi um mann sem hafði engan tíma til að sóa í skóla – samt var draumurinn um lýðræði að byrja að verða að veruleika. Við snérum baki við þessum draumi með því að vekja til lífsins hinn forna draum faraóanna um Egyptaland: skilyrðislaus undirgefni allra. Það var leyndarmálið sem Plató sagði tregur frá í Ríkinu þegar Glaucon og Adeimantus kúguðu Sókrates til að leggja út fyrir sig uppdrátinn að algerri stjórn ríkisins á mannlegu lífi, áætlun sem er nauðsynleg til að viðhalda samfélagi þar sem sumir taka meira en þeirra réttláta hlut. “Ég skal sýna ykkur” sagði Sókrates “hvernig má koma á fót svona sjúkri borg, en ykkur mun ekki líka það sem ég hef að segja.” Þar með var áætlunin um skóla fyrir lexíurnar sjö fyrst dregin upp.

Ríkjandi umræða um hvort við skyldum hafa ríkisnámsskrá er fölsk. Við höfum nú þagar ríkisnámsskrá sem felst í lexíunum sjö sem ég var að útskýra. Slík námsskrá elur af sér líkamlega, siðferðilega og vitsmunalega lömun, og engin skrá um innihald mun nægja til að vinna gegn hrikalegum afleiðingum hennar. Móðursýki ríkjandi umræðu um hrakandi frammistöðu við æðri skólanna missir marks. Skólar kenna nákvæmlega það sem þeim er ætlað að kenna, og þeir gera það vel: hvernig á að vera góður Egypti og halda sig á sínum stað í pýramítanum.

 

III

Ekkert af þessu er óhjákvæmilegt. Ekkert af þessu er ómögulegt að. Við höfum val um það hvernig við ölum upp ungt fólk; það er engin ein rétt leið. Ef við sæjum í gegnum pýramítatálsýnina myndum við skilja það. Það er engin alþjóðleg samkeppni upp á líf og dauða sem ógnar tilveru þjóðfélags okkar, eins erfitt og það er að gera sér í hugarlund, hvað þá að trúa, sökum stöðugrar skothríðar fjölmiðla um að sú goðsögn sé sönn. Þjóðin er sjálfri sér nóg um öll aðföng, þar með talið orku. Ég geri mér grein fyrir að þessi hugmynd stangast á við vinsælustu hugmyndir stjórnmálahagfræðinnar en þessi “djúptstæða ummyndun” á efnahagi okkar sem þetta fólk talar um er hvorki óhjákvæmileg né óafturkræf.

Hnattræn hagfræði tekur ekki tillit til þarfa almennings fyrir merkingafullu starfi, húsnæði við hæfi, gefandi menntun, viðunandi heilbrigðisþjónustu, hreinu umhverfi, heiðarlegri og ábyrgri opinberri stjórnsýslu, samfélagslegri og menningarlegri endurnýjun, eða réttlæti. Allur metnaður í heimsmálum byggist á skilgreiningum um framleiðni og um hið “góða líf”, sem er svo úr tengslum við mannlegan raunveruleika að ég er sannfærður um að hún sé röng og flestir væru sammála ef þeir gætu ímyndað sér einhvern annan valkost. Við gætum séð þetta ef við næðum tökum á heimspeki sem bendir á hvar tilgang er í raun að finna – í fjölskyldum, í vinum, í gangi árstíðanna, í náttúrinni, í einföldum athöfnum og siðum, í forvitni, örlæti, samúð og í þjónustu við aðra, í sæmandi sjálfstæði og einkalífi, í öllum þeim ókeypis og ódýru hlutum sem raunverulegar fjölskyldur, raunverulegir vinir og raunveruleg samfélög spretta úr – þá yrðum við svo sjálfum okkur nóg að við þyrftum ekki á að halda að hafa áhyggjur af því hvort við höfum næg aðföng, eins og alheims “sérfræðingarnir” krefjast af okkur.

Hvernig urðu þeir til, þessir hræðilegu staðir, þessir skólar? Óhefðbundin menntun hefur alltaf verið meðal okkar í alls kyns útgáfum, sem lítillega nothæft hjálpartæki við að vaxa úr grasi. En “nútíma skólun“ eins og við þekkjum hana er afsprengi “Rauðu hræðsluherferðarnna” tveggja árin 1848 og 1919, þegar valdamikil hagsmunaöfl óttuðust uppreisn meðal okkar eigin fátæku iðnverkamanna. Að hluta til varð skólaskyldan til því fjölskyldur sem höfðu verið “amerískar” í margar kynslóðir höfðu andstyggð á menningu keltneskra, slavneskra og latneskra innflytjenda á tímabilinu 1840 til 50, og bauð við kaþólsku trúnni sem þeir fluttu með sér. Vissulega hlýtur þriðja atriðið sem lagði sitt að mörkum við að skapa fyrir börn fangelsi sem kallað er “skóli” að hafa verið hræðslan sem þessar sömu “amerísku” fjölskyldur fundu fyrir við að sjá í samfélaginu framgang afrískra ameríkubúa í kjölfar borgarastyrjaldarinnar.

Virðið aftur fyrir ykkur sjö lexíur skólakennslunnar: ringulreið, bekkja flokkun, áhuga- og skeytingarleysi, tilfinningalegt ósjálfstæði, vitsmunalegt ósjálfstæði, skammtað sjálfsálit, maður getur sig hvergi falið. Allar þessar lexíur eru fullkomin þjálfun fyrir viðvarandi undirstétt, fyrir fólk sem er að eilífu svipt því að finna kjarna þeirra eigin sérstöku snilli. Og í tímans rás hefur þessi þjálfun fjarlægst sitt upprunalega markmið: að hafa stjórn á þeim fákæku. Því frá þriðja áratug tuttugustu aldarinnar hefur vöxtur skriffinnskuveldis skólanna, ásamt minna sýnilegum vexti fjölda atvinnugreina sem græða á skólakerfinu í núlifandi mynd, stækkað upprunalegt starfssvið þessarar stofnunar að því marki að hún hrifsar núna einnig til sín syni og dætur miðstéttafólks.

Er það nokkur furða að Sókrates hafi verið misboðið að vera sakaður um að þyggja fé fyrir að kenna? Jafnvel í þá daga sáu fílósóferar skýrt þann farveg sem kennsla myndi óhjákvæmilega leita í ef hún yrði gerð að starfsgrein; ef kennsluhlutverkið yrði einokað, hlutverk sem er á allra höndum í heilbrigðu samfélagi.

Með lexíur eins og þær sem ég kenni á hverjum degi ætti það ekki að koma neinum á óvart að við búum í rauninni við þjóðfélagslegt hættuástand, sem er allt annars eðlis en það sem fjölmiðlar staðhæfa. Ungt fólk er skeytingarlaust um hag þeirra fullorðnu og um framtíðina, skeytingarlaust um nánast allt nema dægrastyttingu leikfanga og ofbeldis. Skólabörn sem standa frammi fyrir tuttugustu og fyrstu öldinni, bæði rík og fátæk, geta ekki einbeitt sér að neinu mjög lengi; þau hafa lítinn skilning á fortíð og framtíð. Þau treysta ekki á innileg sambönd, þau eru í raun eins og börn skilinna foreldra (því við, sem foreldrar, höfum ekki veitt þeim þá mikilvægu athygli sem þau þarfnast), þau hata einveru, eru grimm, hneigjast til efnishyggju, eru öðrum háð, aðgerðarlaus, ofbeldishneigð, huglítil frammi fyrir hinu óvænta, og ofurseld afþreyingu.

Allar jaðartilhneigingar bernskunnar eru nærðar og ýktar út yfir öll mörk af skólakerfinu sem, með sinni duldu námsskránna, kemur í veg fyrir virkan andlegan þroska. Án þess að nýta sér hræðslu, sjálfselsku og reynsluleysi barna, myndu hvorki skólarnir okkar halda velli né ég sem löggiltu kennari. Engin almennur skóli þar sem menn í raun dirfðist að kenna aðferðir gagnrýninnar hugsunnar – svo sem rökfræðilega samræðulist, (the heuristic) eða aðrar aðferðir sem að frjálsir hugar ættu að nota – myndi endast lengi áður en hann yrði rifinn niður. Í okkar veraldlega samfélagi hefur skólinn komið í stað kirkjunar, og sem kirkja þarfnast hann þess að það sem hann kennir sé meðtekið skilyrðislaust.

Það er kominn tími til að við horfumst í augu við þá staðreynd að stofnana-skólakennsla er skemmandi fyrir börnin okkar. Engin kemst óskræmdur í gegnum sjölexía-námsefnið, ekki einu sinni leiðbeinendur. Kerfið hefur einstaklega andmenntandi áhrif. Smálagfæringar bæta það ekki. Það kaldhæðnislegasta við stöðuna er sú að hinar umfangsmiklu breytingar sem þyrfti að gera á skólakefinu myndi kosta svo miklu minna en við eyðum í það í dag að valdamiklir sérhagsmunir hafa ekki efni á að leyfa því að gerast. Þið verðið að átta ykkur á því að starfsgreinin sem ég vinn í gengur fyrst og fremst út á að vernda störf og að bjóða út verk (samningaafgreiðsla). Við höfum ekki efni á því að spara með því að minnka umfang starfsemi okkar eða að auka fjölbreytni þess sem við bjóðum upp á, jafnvel þótt það myndi hjálpa börnum að vaxa rétt úr grasi. Þetta eru járnlög skólastofnanna-kerfisins –  iðnaðar, sem byggir hvorki á eðlilegri skilvirkni né stjórnast af skynsamlegum lögmálum samkeppninnar.

Lausnirnar er líklega að finna með því að beita almenna skólakerfið lögmálum markaðarins í einhverri mynd. Frjáls markaður þar sem eru fjölskylduskólar og litlir einkaskólar, handverksskólar og bændaskólar í virkri samkeppni við opinbera menntun. Ég er að reyna að lýsa frjálsum skólamarkaði nákvæmlega eins og þeim sem var til í landinu fram að borgarastríðinu, fyrirdaga skólaskyndunnar, þar sem nemendur buðu sig fram til menntunar sem féll þeim, jafnvel þótt það þýddi sjálfsmenntun. Ég fæ ekki séð að það hafi skaðaði Benjamin Franklin. Þessir valmöguleikar eru til í litlu mæli í dag, þeir hafa lifað af frá þróttmikilli fortíð, en þeir standa aðeins til boða þeim úrræðagóðu, hugrökku, heppnu eða ríku. Það er nánast ómögulegt að einhver þessara leiða bjóðist brotnum fátækum fjölskyldum eða þeim fjölda ráðviltu fjölskyldna á jaðri millistéttarinnar, sem gefur til kynna að hörmungar sjölexína-skólanna muni vaxa, nema við bregðumst við klúðri ríkiseinokunarskólanna á djarfan og ákveðin hátt.

Eftir að hafa eytt æfinni í að kenna í skóla, tel ég að hið eina sanna innihald fjöldaskólunnar sé aðferð hennar. Látið ekki glepjast af því að góð námsskrá eða góð aðstaða eða góðir kennarar sé það sem afgerandi ákvarðar menntun sona ykkar og dætra. Öll þau sjúklegu tilbrigði sem við höfum fjallað um eru að miklu leyti afleiðingar þess að lexíur skólanna koma í veg fyrir að börn geti sjálf og með fjölskyldum sínum til að lært lexíur í sjálfshvatningu, þolgæði, sjálfstrausti, hugrekki, reisn og ást – einnig lexíu í því að þjóna öðrum, sem er ein grundvallar lexía heimilis- og samfélagslífs.

Fyrir þrjátíu árum síðan var enn hægt að læra þessar lexíur eftir skólann, en í dag stelur sjónvarpið megnið af þeim tíma, og samanlagðir kraftar sjónvarpsins og streitunnar sem að einkennir einstæða útivinnandi foreldra eða fjölskyldur þar sem báðir foreldrarnir eru útivinnandi hafa einnig gleypt þann tíma sem fjölskyldur vörðu áður saman. Krakkarnir okkar hafa ekki lengur tíma aflögu til að vaxa úr grasi sem heilbrigðar manneskjur og aðeins grunnan ófrjóan jarðveg til að gera það í.

Sú framtíð sem nálgast óðfluga mun krefjast þess að við lærum öll að meta vísdóm óefnislegrar reynslu; framtíð sem mun krefjast þess lífsgjalds að við fylgjum vegi náttúrulegs lifnaðar sem er hagkvæmur í efnislegu tilliti. Þessar lexíur er ekki hægt að læra í skólum eins og þeir eru. Skólinn er tólf ára fangelsisvist þar sem slæmir siðir eru eina námsskráin sem sannarlega er lærð. Ég kenni í skóla og vinn verðlaun fyrir. Ég ætti að vita það.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband