Rammalöggjöf um farsælari gerð kjarasamninga

Verkföllin sem nú ýmist standa eða vofa yfir með hættuástandi í heilbrigðiskerfinu og gríðarlegum kostnaði fyrir alla landsmenn voru fyrirsjáanleg. Þegar stjórnvöld sjá fyrir slíka krísu þá ber þeim skylda að setja framarlega í forgangsröðina vinnu til að bregðast sem farsælast við henni.

Ríkisstjórnin hefur síðustu tvö ár lofað að "unnið verður að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðarog tóku fyrir tveimur árum þátt í starfi með aðilum vinnumarkaðarins um "breytta umgjörð við gerð kjarasamninga [til að] tryggja meiri aga og festu líkt og einkennir gerð kjarasamninga á Norðurlöndumog bæði ASÍ og SA hafa talað fyrir. Ríkisstjórnin lofaði líka eftir kosningar að hún myndi "með aðgerðum sínum [...] eyða þeirri pólitísku óvissu". Óvissa hefur ekki verið meiri á vinnumarkaði lengi og ekkert bólar enn á rammalöggjöf utan um farsælli gerð kjarasamninga. 


Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins:

"Með aðgerðum sínum hyggst ríkisstjórnin einnig eyða þeirri pólitísku óvissu sem hefur verið of áberandi þáttur í íslensku þjóðlífi á undanförnum árum. Unnið verður að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar. Það er forsenda þess að Íslendingar geti hafið nýtt skeið vaxtar og stöðugleika að íslenskt efnahagslíf njóti að nýju trausts á innlendum sem erlendum vettvangi. Þannig verða undirstöður velferðar treystar og sköpuð skilyrði fyrir bættri afkomu heimilanna."

Minnisblaði sitjandi stjórnvalda til aðila vinnumarkaðarins, Undirbúningur kjarasamninga með áherslu á efnahagslegan stöðugleika og kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna sem og breytta umgjörð við gerð kjarasamninga, segir:

"Í aðdraganda að gerð kjarasamninga hafa aðilar vinnumarkaðarins horft til framtíðar og breyttrar umgjarðar við gerð kjarasamninga. Vilji er til að tryggja meiri aga og festu líkt og einkennir gerð kjarasamninga á Norðurlöndum hvort sem um er að ræða bein samskipti aðila vinnumarkaðarins eða tengsla kjarasamninga við efnahagsstefnu stjórnvalda. Skýrslan „Kjarasamningar og vinnumarkaður á Norðurlöndum “ sem kom út í mars 2013 er skref í þá átt að skilgreina meginþætti norræna samningamódelsins og hlutverk ríkisins. Einnig þarf að skerpa sameiginlega sýn viðsemjanda á efnahagsmál og launabreytingar sem samrýmast stöðugleika og mikilvægi hlutverks ríkisins við að skapa samningum traustan grundvöll með ábyrgri efnahagsstefnu. Skýrslan „Í aðdraganda kjarasamninga – Efnahagsumhverfi og launaþróun“ sem kom út í október 2013 er afrakstur þeirrar vinnu."

Riti Alþýðusambands Íslands, Kaup og kjör – sköpun verðmæta til að ná fram jöfnuði, segir:

"ASÍ og SA lýstu því yfir í tengslum við endurskoðun kjarasamninga árið 2013 að samtökin vildu koma að sameiginlegu borði með aðilum opinbera vinnumarkaðarins og setja sér markmið um bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Nærtækast töldu ASÍ og SA að leita fyrirmynda hjá nágrannalöndunum sem tekist hefur að auka kaupmátt samhliða lágri verðbólgu. Samtökin töldu rétt að stefna að því að í sumarbyrjun 2013 yrði til sameiginleg sýn allra aðila vinnumarkaðarins á svigrúm atvinnulífsins og samfélagsins til aukins kostnaðar og bættra lífskjara næstu árin. Sú sýn og bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga áttu að vera mótandi við gerð kjarasamninga haustið 2013."

Riti Samtaka Atvinnulífsins, 10/10 BETRI LÍFSKJÖR 10 TILLÖGUR TIL AÐ KOMA OKKUR Á TOPPINN Á 10 ÁRUM, segir: 

"Norræna vinnumarkaðslíkanið hefur tryggt efnahagslegan stöðugleika og skapað betri lífskjör en íslenska líkanið. Aðilar vinnumarkaðar, stjórnvöld og Seðlabankinn bera sameiginlega ábyrgð á því að koma á og viðhalda efnahagslegum stöðugleika. [...] Rökrétt viðbrögð við ítrekuðum efnahagsvanda Íslands er að leita fyrirmynda hjá nágrannaríkjum Íslands sem geti nýst til að bæta vinnubrögð við hagstjórn og launamyndun þannig að saman fari stöðugt verðlag, stöðugt gengi, vaxandi kaupmáttur og samkeppnishæft atvinnulíf."

Tillögur Samráðsvettvangs um aukna hagsæld:

"Gerðar verði umbætur á fyrirkomulagi kjarasamninga. Nýtt verklag við kjarasamninga til stuðnings við uppbyggilegar viðræður og útkomur í jafnvægi. Sjálfvirk úrræði sem neyða samningsaðila til að hefja viðræður fyrr og halda sér við efnið. Ríkissáttasemjari með sterkt umboð."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Ef allir eru sammála um að endurskoða og breyta vinnulöggjöf frá 1938, því skyldi það ekki gert? Löggjafinn er að þrefa um allt annað en það sem er mikilvægast þessa stundina.

Norræna mótelið er fyrir hendi. Margt vitlausara hefur verið afritað. Lög um útlendinga er eitt af því sem er út úr kú og ekki aðlagað íslenskum aðstæðum. Hér vantar útflutningsgreinum ákveðnar starfstéttir, t.d. kokka, en allt er í lás og slá. Fyrirtækjunum og almenning eru settar þröngar skorður. 

Auknir búferlaflutningar eiga að vera til viðvörunar en ekkert gerist. Störf Alþingis endurspegla aðgerðaleysið. Hver höndin upp á móti annarri.

Sigurður Antonsson, 17.5.2015 kl. 11:36

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og ellefu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband